Ég hef verið næstráðandi sem verslunarstjóri og sinnt mikið af daglegum rekstri verslunarinnar. Það sem helst breytist núna við að taka við framkvæmdastjórn, er að ég þarf að víkka sjóndeildarhringinn í stað þess að hugsa eingöngu akkúrat um daginn í dag," segir Stefán Rúnar Dagsson sem ekki hefur tekið ákvörðun um hvort ráðið verði í verslunarstjórastöðuna.

„Ég hyggst aðeins sjá bara hvernig það þróast, en undanfarið hef ég einnig verið að sinna framkvæmdaverkefnum mikið, bæði hér innanhúss og að einhverjum hluta á nýjum tæplega 5.000 fermetra lager sem við vorum að opna í Suðurhrauni. Síðan hef ég komið að IKEA smáíbúðunum uppi í Urriðaholti, en þar erum við núna í frágangi utanhúss en að öðru leyti er allt tilbúið og fólk flutt inn."

Segja má nánast að Stefán Rúnar hafi verið viðriðinn rekstur IKEA frá fæðingu. „Þannig var að móðir mín vann í Hagkaup í mörg ár, en þegar Pálmi fékk leyfið fyrir IKEA og opnaði í nokkur hundruð fermetrum á efri hæðinni í Skeifunni, þar sem skrifstofurnar voru um tíma, þá fór hún yfir. Síðan varð hún þjónustustjóri hjá IKEA í Húsi verslunarinnar," segir Stefán Rúnar sem fór að hlaupa í störf í versluninni, en einnig um tíma hjá Hagkaup, frá þrettán ára aldri.

„Ég var meðal fyrstu starfsmanna IKEA í Holtagörðunum, fyrst bara að hjálpa verktökunum áður en þar opnaði, en eftir að ég kláraði fjölbrautaskólann fer ég í Tækniskólann og lærði iðnrekstrarfræði. Ég kláraði reyndar aldrei alveg, átti einhver tvö námskeið eftir, en IKEA hringir í mig í lok námsins og býður mér starf í innkaupadeildinni. Síðan verð ég birgðastjóri og svo sölustjóri og stýrði smávörudeildinni. Loks þegar við opnum hér í Kauptúninu þá flyt ég hingað fimm mánuðum fyrir opnun og sinni uppsetningu verslunarinnar hér. Ég þekki orðið hvert einasta skúmaskot í þessari um 22 þúsund fermetra byggingu, t.d. vita það fáir að það eru göng úr miðju húsinu yfir í annað hús á lóðinni." Um tíma vann Stefán Rúnar erlendis við að setja upp verslun IKEA í Vilníus í Litháen. „Við þurftum að átta okkur hvað ætti að bjóða upp á þar, t.d. býr fólk í minna húsnæði og enginn er með sófa, heldur allir með svefnsófa því foreldrarnir sofa yfirleitt í stofunni en börnin í herberginu."

Stefán Rúnar býr í dag í Kópavogi. „Ég bý upp við Elliðavatn sem er alveg frábært fyrir göngutúra enda eigum við tvo hunda. Konan mín heitir Rut Gunnarsdóttir og starfar hjá Origo og við eigum saman tvíbura, stelpu og strák á tólfta ári. Fyrir utan vinnu stundaði ég lengst af golf frá átta ára aldri og síðan fór ég út í það rugl að stofna hjólalið innan IKEA."