Blóðprufufyrirtækið Theranos verður leyst upp, og öllum fjármunum þess dreift til lánadrottna, að því er fram kemur í tölvupósti til fjárfesta þess, sem Wall Street Journal segir frá . Stofnandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, Elizabeth Holmes, var ákærð fyrir stórfelld svik fyrr í sumar.

Fréttirnar marka endalok fyrirtækis sem hugðist gjörbylta blóðprufum og gera nálir óþarfar, og var á sínum tíma hyllt sem ein af vonarstjörnum Kísildalsins.

Metið á 1000 milljarða króna
Félaginu tókst að safna 700 milljón dollurum, um 77 milljörðum króna, á 2 ára tímabili milli 2013 og 2015, og þegar best lét var það metið á um það bil 9 milljarða dollara, um 1000 milljarða íslenskra króna. Meðal fjárfesta var lyfjaverslunarrisinn Walgreens, fjölmiðlajöfurinn Rupert Murdoch, og Larry Ellison, meðstofnandi tölvutæknirisans Oracle.

Í stjórn félagsins áttu meðal annars sæti Jim Mattis, sitjandi varnarmálaráðherra bandaríkjanna, og Henry Kissinger og George Schultz, fyrrverandi utanríkisráðherrar, auk hins þekkta lögfræðings David Boies.

Allt að 20 ára fangelsi
Ríkissaksóknari vill meina að Holmes og fyrrverandi rekstrarstjórinn, Ramesh Balwani, hafi vísvitandi logið til um áreiðanleika blóðprufukerfisins, sem hafi skilað villukenndum niðurstöðum og lagt sjúklinga í hættu.

Þau hafa sem fyrr segir verið ákærð fyrir stórfelld svik og eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisdóm, auk 300 milljón króna sektar, rúmum 27 milljónum fyrir hvern 11 ákæruliða. Þau neita bæði sök.

Auk hegningarlagabrotanna voru þau ákærð af Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna í mars fyrir stórfelld brot á verðbréfalögum. Holmes og fyrirtækið hafa komist að samkomulagi við eftirlitið utan dómstóla um þau brot, en málið gegn Balwani stendur enn yfir.