Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, virðist nú vera tilbúinn til þess að gefa eftir við Evrópusambandið til að koma Brexit viðræðunum áfram en það gæti orðið henni kostnaðarsamt í pólitískum skilningi að því er kemur fram á The Wall Street Journal . Ávinningurinn af því að koma viðræðunum á næsta stig og geta hafið umræður um viðskiptasamband og aðlögun eftir að Brexit tekur gildi, gæti einnig orðið lítill. Ástæðan er sú að foryustmenn ESB hafa verið að taka harða línu þegar kemur að mótun viðskiptasambands til framtíðar og gefið til kynna að Bretland muni koma til með að þurfa að innleiða stóran hluta af regluverki og stöðlum sambandsins. Því gæti verið eftir litlu að slægjast fyrir Theresu May.

Í núverandi samningalotu var hugmyndin sú að ef hægt væri að ganga frá skilnaðarpappírunum ef svo má að orði komast fyrir árslok, yrði hægt að ræða framtíðarsamband ESB og Bretlands eftir áramót. Þrjú megin ágreiningsefni standa út af borðinu svo hægt sé að afgreiða pappírana en það eru réttindi borgara ESB í Bretlandi og öfugt, uppgjör á fjármálalegum kröfum ESB gagnvart Bretlandi og málefni landamæra Írlands sem er hluti af ESB og Norður-Írlands sem er hluti af Bretlandi.

Það lítur því allt út fyrir að lítill sveigjanleiki sé fyrir því að Bretar komist hjá því að innleiða regluverk á aðlögunartíma eftir útgöngu og alls kostar óljóst hvort leiðtogar ESB séu tilbúnir til þess að leggja línurnar fyrir samningaviðræður um framtíðarviðskiptasamband við Breta þrátt fyrir eftirgjafir May.