Friðrik Sophusson sat í þingi í tuttugu ár eða frá árinu 1978 til 1998. Hann var iðnaðarráðherra frá 1987 til 1988 og fjármálaráðherra nánast allan tíunda áratug síðustu aldar eða frá árinu 1991 til 1998, en þá var hann einnig varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Friðrik er í ítarlegu í viðtali í 25 ára afmælisriti Viðskiptablaðsins sem var að koma út. Í viðtalinu er megináherslan lögð á fjármálaráðherratíð hans.

Á níunda áratugnum voru efnahagsmálin erfið og verðbólgan oftar en ekki mæld í tugum prósenta á ársgrundvelli. Mikið rót var í pólitíkinni á seinni hluta áratugarins. Hafskipsmálið litaði meðal annars stjórnmálin því í tengslum við það sagði Albert Guðmundsson af sér sem iðnaðarráðherra árið 1987 og í kjölfarið hraktist hann úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði Borgaraflokkinn. Frá þessum tíma ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar í beinni útsendingu á Stöð 2 haustið 1988.

Á tíunda áratugnum urðu ákveðin umskipti og mikil gerjun í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi. Þjóðarsáttarsamningarnir árið 1990 mörkuðu ákveðin þáttaskil. Í einföldu máli má segja að með þeim hafi samkomulag náðst um að róa öllum árum að því að auka hér kaupmátt eftir verðbólgubál níunda áratugarins, þar sem laun voru sífellt hækkuð umfram framleiðniaukningu. Árið 1994, sama ár og Viðskiptablaðið hóf göngu sína, tók EES-samningurinn gildi og þar með opnaðist innri markaður Evrópusambandsins fyrir EFTAríkin , sem gerði meðal annars íslenskum fyrirtækjum kleift að stunda viðskipti hindrunarlaust á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta sameiginlega efnahagssvæði grundvallast á reglunum um fjórfrelsið, sem byggir á frjálsum vöruflutningum, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsum fjármagnshreyfingum.

Sjálfstæðisflokkurinn var við völd nánast allan tíunda áratuginn, fyrst með Alþýðuflokknum og síðar Framsóknarflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn, sem hafði goldið afhroð í kosningunum 1987 og fengið einungis um 27% atkvæða, náði vopnum sínum á ný í kosningunum 1991 þegar hann fékk tæp 39%.

Á þessum tíma hafði vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar verið við völd frá árinu 1988 með Ólaf Ragnar Grímsson sem fjármálaráðherra. Vinstristjórnin hélt velli í kosningunum 1991 og vildu Framsóknarflokkur og Alþýðubandalagið halda samstarfinu áfram en Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, var á öðru máli. Davíð Oddsson, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, bauð Jóni Baldvini til viðræðna í Viðeyjarstofu og þar var mynduð ríkisstjórn, sem jafnan er nefnd Viðeyjarstjórnin.

Verðbólgan og þjóðarsáttin

Friðrik segir að á níunda áratugnum hafi engin ríkisstjórn ráðið við verðbólguna.

„Í sjö eða átta ár var halli á ríkissjóði. Verðbólgan magnaðist upp vegna þess að kjarasamningar voru vísitölubundnir og ekki nokkur leið að ná tökum á einu eða neinu. Í stjórn Þorsteins Pálssonar byrja verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur að tala saman til að reyna að finna lausn á þessu. Einar Oddur Kristjánsson var formaður efnahagsnefndar ríkisstjórnarinnar á þessum tíma. Hann og Ásmundur Stefánsson, sem þá var forseti ASÍ, höfðu góðan skilning á því að það yrði að taka niður verðbólguna og horfa á kaupmáttinn frekar en krónurnar.

Í byrjun árs 1990 takast samningar, sem strax voru kenndir við þjóðarsáttina. Ríkisstjórn Steingríms má eiga það að hún stóð að margs konar aðgerðum til að liðka fyrir samningunum. Þetta var hins vegar ekki auðvelt því Bandalag háskólamanna stóð fyrir utan þjóðarsáttarsamningana, Ólafur Ragnar hafði samið við það áður. Það þurfti síðan bráðabirgðalög til að taka þá samninga til baka, sem var mjög harkaleg aðgerð. Þeir sem stóðu að þjóðarsáttarsamningunum gerðu þetta að skilyrði og því varð Ólafur Ragnar að gera þetta, hagsmunirnir voru slíkir. Það hjálpaði til að Ólafur Ragnar þurfti ekki að óttast stjórnarandstöðuna í þessu máli því þjóðarsáttarsamningarnir nutu stuðnings Sjálfstæðisflokksins, en ekki var algengt á þessum tímum að stjórnarandstöðuflokkar stæðu með ríkisstjórn að slíkum málum. Það er samt alveg ljóst að þessi aðgerð var Ólafi Ragnari mjög erfið.“

Friðrik segir að ári eftir að Viðeyjarstjórnin tók við völdum hafi úrskurðir Kjaradóms verið afnumdir með bráðabirgðalögum. til að verja nýja kjarasamninga, sem byggðu á þjóðarsáttarsamningunum. Einnig var lögunum um Kjaradóm breytt til að koma í veg fyrir of miklar hækkanir embættismanna.

„Á meðan verðbólgan geisaði þá komust menn ekki í nein langtímaverkefni því það voru allir að slökkva elda. Það var aldrei hægt að sjá lengra en í mesta lagi ár fram í tímann. Þjóðarsáttarsamningarnir sköpuðu vinnufrið og forsendur fyrir því að stjórnmálamenn gátu farið að hugsa til lengri tíma og huga að öðrum brýnum verkefnum.

Svo virðist sem þeir yngstu og róttækustu í verkalýðshreyfingunni í dag séu búnir að gleyma þessu öllu. Búnir að gleyma þjóðarsáttarsamningunum, hvers vegna þeir voru gerðir og hversu mikið átak þurfti til að vinda ofan af því ömurlega ástandi sem ríkt hafði á vinnumarkaði á níunda áratugnum. Það er alltaf skynsamlegast að horfa á kaupmáttinn. Sem betur fer kviknuðu loksins ljós, þegar WOW air féll og stór hópur launamanna varð atvinnulaus.

Viðtalið má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið .