Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að staðan í fjármálum bæjarins sé grafalvarleg.

Kjartan segir að verið sé að hagræða í rekstri bæjarins. „Við erum að reyna ná fram 500 milljón króna hagræðingu í kerfinu. 250 milljónir af því áttu að koma í gegnum launaleiðina og 250 milljónir áttu að koma fram í gegnum þjónustukaup og annars konar innkaup.“

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að mikill halli hefði verið á rekstri Reykjaneshafnar á árinu. Varðandi Reykjaneshöfn segir Kjartan að það „vantar fullt af tekjum inn á árið. Thorsil ætlar ekki að greiða okkur afborgun inn á sín mál fyrr en þeir fá endanlegt go á raforkusamninga sem þeir er með. Tekjurnar munu ekki koma inn á þetta ár hjá okkur eins og við reiknuðum með, kostnaðurinn kemur á þetta ár en ekki tekjurnar.“ Kjartan vísar þarna til fyrirtækisins Thorsil sem ætlar að byggja kísilver í Helguvík.

Kjartan Már Kjartansson.
Kjartan Már Kjartansson.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Reiknar með auknum tekjum á næsta ári

Kjartan segist reikna með að tekurnar komi inn á næsta ári en þær tekjur átti að standa á móti þeim afborgunum sem Reykjaneshöfn á að greiða nú um miðjan mánuðinn. „Hundruðir milljóna tekjur eru því áætlaðar á næsta ári sem munu að stórum hluta fara í framkvæmdir, við eigum eftir að gera helling í Helguvík, útbúa lóðir og ýmislegt. Kostnaðurinn eykst en tekjurnar munu aukast líka.“

Óska eftir auknum fjárframlögum frá ríkinu

Í umsögn Reykjanesbæjar til fjárlaganefndar Alþingis má sjá að töluverður kostnaður er ófjármagnaður við uppbyggingu  Helguvíkur en Reykjanesbær fer fram á fjárframlag upp á 1.070 milljónir króna í komandi fjárlögum. Jafnframt er farið fram á að horft verði til þess að næstu fjögur ár þar á eftir komi fjárframlög sem nemi 1.530 milljónum króna.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um málefni Reykjaneshafnar og Helguvíkur frá lok ágúst má sjá að áratuga atvinnuþróun í Helguvík hefur ekki enn borið ávöxt. Reykjaneshöfn hefur skilað neikvæðri rekstrarafkomu á hverju ári frá stofnun félagsins árið 2005 og uppsafnað tap Reykjaneshafnar frá 2005 er yfir 4,1 milljarður króna.

Samningaviðræður á viðkvæmu stigi

Þessi slæma fjárhagsstaða Reykjaneshafnar hefur mikil áhrif á fjárhag Reykjanesbæjar en í gær var tilkynnt að ef Reykjanesbær nær ekki samningum við kröfuhafa um endurskipulagningu og verulega niðurfellingu skulda hjá Reykjanesbæ muni bæjarfélaginu vera skipuð fjárhagsstjórn, eins og skylt er samkvæmt sveitastjórnarlögum. Aðkoma kröfuhafa Reykjaneshafnar í formi endurskipulagningar skulda er forsenda fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu Reykjanesbæjar.

Kjartan vill ekkert tjá sig um hvernig samningaviðræður milli Reykjanesbæjar og kröfuhafa en segir að „þær eru á viðkvæmu stigi og voða lítið hægt að segja um það meðal málið stendur þannig.“