Börkur NK hélt til síldveiða eftir nokkurt hlé sl. þriðjudag. Veiðar gengu vel og kom hann til löndunar í Neskaupstað með 950 tonn sl. fimmtudag. Að löndun lokinni var haldið á miðin á ný og kom skipið með 1050 tonn í gærkvöldi, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að auðvelt hafi verið að fá þennan afla. „Í fyrri túrnum fengum við síldina í Norðfjarðardýpi í fjórum holum en í seinni túrnum var togað við Glettinganesflak og norður í Héraðsflóa. Í seinni túrnum voru einnig tekin fjögur hol. Þetta er algjör súpersíld sem hlýtur að henta vel í alla vinnslu,“ sagði Hjörvar.