„Þetta er stöðugleiki,“ sagði Halldór Auðar Svansson, fráfarandi oddviti Pírata, þegar blaðamaður kynnti fyrir honum niðurstöður úr könnun Viðskiptablaðsins . Píratar mælast nú með 13% fylgi samanborið við 13,3% í síðustu könnun.

„Ég held að við getum ennþá vel við unað og höldum ágætlega haus þó að annað hreyfist aðeins. Prófkjör hefst hjá okkur í næstu viku og 19 manns gefa kost á sér. Málefnastarfið er einnig komið á fullt skrið. Ég held að við höfum alla ástæðu til að vera full bjartsýni og að við höfum góð tækifæri til að sækja enn meira,“ segir Halldór Auðar og bætir við að fyrir sitt leyti sé það ánægjuefni að meirihlutinn haldi.

Líf Magneudóttir oddviti VG tók í sama streng um áframhaldandi samstarf núverandi meirihluta . Hún sagðist vonast til þess að vinstrimenn áttuðu sig á hvaða flokkur væri lengst til vinstri, aðspurð hvort flutningur fylgis til Samfylkingar væri refsing vegna stjórnarsamstarfs flokksins á Alþingi með Sjálfstæðisflokki og Framsókn.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Eyþór Arnalds, oddviti stærsta flokksins í minnihlutanum í borginni töluðu báðir um að línur væru að verða skýrari milli flokkanna. Dagur sagði Sjálfstæðismenn vilja horfa til fortíðar meðan Eyþór sagðist sannfærður um að borgarbúar vilji breytingar .