Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, hefur komið að rannsóknum og fræðslu um fjármálalæsi bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Hann segir að þrátt fyrir að mikið hafi áunnist hvað varðar fjármálalæsi þjóðarinnar sé víða pottur brotinn og kallar hann eftir því að stofnanir, yfirvöld og einkaaðilar sameini krafta sína með það að markmiði að vinna átak í fjármálalæsi þjóðarinnar.

Efla fjármálalæsi Rómafólks

Fjármálalæsi miðar að því að almenningur nái betri tökum á eigin fjármálum og tryggi fjárhagslegan stöðugleika í lífi sínu og fjölskyldna sinna. Stofnun um fjármálalæsi stendur fyrir þjóðarátaki um bætt fjármálalæsi og vinnur að útbreiðslu þess, með rannsóknum, fræðslu og fleira. „Stofnun um fjármálalæsi var sett á fót á því herrans ári 2005 og frá árinu 2008 höfum við framkvæmt rannsóknir á fjármálalæsi Íslendinga á þriggja ára fresti auk rannsókna erlendis.

Stofnunin hefur þannig t.d. komið að gerð spurninga á PISA-prófinu um fjármálalæsi fyrir OECD, framkvæmt rannsóknir í Rússlandi og margt fleira. Um þessar mundir erum við svo í miðju þriggja ára verkefni sem miðar að því að efla fjármálalæsi Rómafólks í austurhluta Slóvakíu,“ segir Breki.

Nánar er fjallað um málið í Fjármálalæsi, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.