Aukin hagsæld og fjölgun flugferða til og frá landinu hefur breytt landslaginu sem íslenskar ferðaskrifstofur starfa í. Ferðaskrifstofa Íslands hefur tekið þessari þróun með opnum örmum.

Eflaust kannast flestir við vörumerki á borð við Úrval-Útsýn, Sumarferðir, Plús ferðir og ITB, en þau tilheyra öll Ferðaskrifstofu Íslands. Um er að ræða stærstu óháðu ferðaskrifstofu landsins og kemst fyrirtækið í 481. sæti á lista Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki. Auk þess er fyrirtækið fremst í sínum flokki.

Keppa við netið

Þórunn Reynisdóttir tók við stöðu forstjóra fyrir þremur árum, eftir að hafa komið víða við í ferðaþjónustu síðustu 40 árin. Hún segir landslagið breytt, en í grunninn gildi alltaf sömu prinsipp:

„Þetta er breytt landslag. Núna er miklu meiri hraði í greininni og miklu meira framboð. Ferðaskrifstofur eru í dag að keppa við netið og til þess að veita betri þjónustu þarf að tryggja gæði og fjölbreytni.“ Alls starfa um 35 manns hjá fyrirtækinu að frátöldum þeim sem starfa á áfangastöðum fyrirtækisins erlendis.

Traust og öryggi

Með aukinni hagsæld hafa Íslendingar sótt aftur í þjónustu til ferðaskrifstofa. Þórunn bendir á að því fylgi almennt ýmsir kostir að kaupa ferðir í gegnum ferðaskrifstofur.

„Ef þú ert að fara í frí, þá vilt þú að fríið þitt sér áhyggjulaust. Við sjáum að viðskiptavinir okkar koma aftur vegna þess að við erum sérfræðingar í okkar fagi. Það eru örugg viðskipti sem eiga sér stað, þú getur verið viss um að vera búinn að greiða allt og að það séu engin önnur gjöld að bætast ofan á verðið þegar á áfangastað er komið.“

Spurð um aldursdreifingu viðskiptavina segist hún almennt ekki sjá mikinn mun á viðskiptavinum. „Við erum með mjög dreifðan aldurshóp í viðskiptum hjá okkur. Ég held að við náum til allra. Þetta snýst bara um framboð, verð, traust og öryggi.“ Þórunn segir það einnig gífurlega mikilvægt að halda sér á tánum, enda geta aðstæður breyst og því sé líka mikilvægt að hlusta á viðskiptavini.

„Það eru ákveðnir staðir sem eru vinsælli milli ára. Þetta fer alltaf í einhverjar kúrvur. Mesta breytingin er þó auðvitað sú að það er miklu meira úrval í dag. Aðkoma allra þessara flugfélaga sem koma hingað til landsins hefur opnað nýjar dyr. Við þurfum því bara að halda áfram að keppast við að bjóða upp á það sem fólk hefur áhuga á.“

Heimurinn smækkar

Heimurinn virðist sífellt vera að smækka og því er sífellt hægt að bjóða upp á ferðalög til fleiri heimshorna. „Við höfum verið með ferðir til Taílands, núna erum við svo í samvinnu við Icelandair að ná beinu flugi til Kúbu og síðan hefur staðir á borð við Marrakesh verið að koma aftur á sjónarsviðið.“ Þórunn segir fólk einnig vera að ferðast til staða á borð við Suður-Afríku og Asíu í auknum mæli.

Það virðist því án efa kostur að vera ekki í eigu flugfélaga, þar sem fyrirtækið nær að nýta sér stöðuna til þess að tryggja og sækja hagstæðustu verðin með því að vera óháð. Þórunn segir það einnig vera einn helsta kost þess að ferðast í gegnum fyrirtækið. „Fjölskyldur, fyrirtæki, íþróttalið, golfarar og aðrir hafa beint samband við okkur og við náum í krafti stærðarinnar að bjóða þeim hagstæð verð á hverjum tíma. Auk þess spara þessir aðilar tíma og peninga með því að láta sérfræðingana sjá um ferlið.“

Úrval siglinga hefur einnig aukist umtalsvert. „Við bjóðum upp á hefðbundnar ferðir með skemmtiferðaskipum. Það eru til að mynda siglingar um Miðjarðarhafið og austurhluta Karíbahafs. Fólk getur því hoppað milli eyja á ýmsum stöðum. Auk þess er nýjung að bjóða upp á lúxus fljótasiglingar í Evrópu og Asíu.“

Breytt landslag

Veraldarvefurinn hefur haft gífurleg áhrif á ferðaskrifstofur á síðustu árum. Auðveldara er fyrir fólk að bóka ferðalög án milliliða og því hafa ferðaskrifstofur þurft að aðlaga sig að breyttum þörfum. Árið 2000 störfuðu um 124.000 einstaklingar sem ferðaráðgjafar í Bandaríkjunum. Árið 2016 voru þeir um 70.000. Þórunn segir fólk þó aftur vera að snúa sér til sérfræðinga til þess að sigta úr öllu upplýsingaflóðinu á netinu

  • Helstu vörumerki Ferðaskrifstofu Íslands eru Úrval-Útsýn, Sumarferðir, Plús ferðir og ITB.
  • Fólk ferðast nú í auknum mæli til framandi landa í Afríku og Asíu.
  • Golfferðir og siglingar hafa verið að koma sterkar inn með aukinni hagsæld.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .