Uffe Ellemen-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, segir Evrópusambandið ekki lokaðan pakka aðspurður um hvort þurfi að sækja um aðild til að komast að því hvað felst í henni.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, en þar er vísað í algengt þema í umræðum hér á landi um Evrópumál.

„Þið vitið hvað þið væruð að fara út í," segir Uffe. „Og ef þið eruð ekki reiðubúin til þess, haldið ykkur þá fyrir utan sambandið. Það er það besta sem þið getið gert.“

Segir hann það liggja að öllu leyti fyrir hvað sé í boði með inngöngu í sambandið, en Uffe Ellemen-Jensen hefur lengi verið áhugasamur um að fá Noreg og Ísland inn í sambandið.

Vegna vandræða sambandsins þurfi það ekki fleiri vandræðagemsa

Hins vegar segist hann hafa fyrir löngu gefist upp á að mynda sér skoðun á Íslandi og Evrópusambandinu, og betra sé að láta Íslendinga um þau mál sjálfir.

„Þess utan á sambandið við svo mikla erfiðleika að stríða eins og staðan er í dag að við þurfum ekki fleiri vandræðagemsa innan veggja þess.“