Mark Zuckerberg mistókst sem stjórnanda að bregðast við og taka ábyrgð á þeirri holskeflu falsfrétta sem náð hafa dreifingu fyrir tilstilli Facebook. Þetta er niðurstaða breskrar þingnefndar sem skilaði niðurstöðum sínum í dag og fjallað er um á fréttavef BBC . Ósannar fréttir frá erlendum valdhöfum hafi ógnað bresku lýðræði og því telur nefndin ástæðu til þess að auka eftirlit með samskiptavefnum vinsæla.

Rannsóknin var í höndum nefndar um stafræna tækni, menningu, fjölmiðla og íþróttir og beindi sjónum sínum sérstaklega að viðskiptum Facebook fyrir og eftir skandalsins í kringum Cambridge Analytica. Skandalinn snerist um hvernig auglýsinga- og markaðsfyrirtækið Cambridge Analytica aflaði gagna um milljónir notenda Facebook í gegnum persónuleikapróf á vefnum. Gögnin voru svo nýtt til þess að beina sérsniðunum skilaboðum og falsfréttum til notendanna í þeim tilgangi að hafa pólitísk áhrif á kosningarnar.

„Lýðræðið er í hættu vegna óstöðvandi bylgju sérsniðinna og vafasamra upplýsinga frá ógreinalegum aðilum sem fá dreifingu á stóru samskiptavefjum sem við notum daglega,“ segir í niðurstöðu rannsóknarinnar. „Stóru tæknifyrirtækin hafa brugðist skyldum sínum gagnvart notendum um að standa vörð gegn skaðlegum upplýsingum og virða rétt þeirra til einkalífs.

Meðal aðgerða sem nefndin leggur til að gripið verði til er að setja siðareglur yfir starfsemi samskiptamiðla sem verði framfylgt af sjálfstæðari stofnunn. Stofnunin hafi vald til að lögsækja fyrirtækin ef þau brjóta reglurnar. Þá leggur nefndin til að kosningalöggjöf Bretlands verði tekin til algjörar endurskoðunar í ljósi þeirra breytinga sem samskiptamiðlar hafa haft á umhverfi stjórnmála og kosninga.