Tveir af núverandi þingmönnum Samfylkingarinnar eru í að öllum líkindum að fara að detta af þingi í alþingiskosningunum í vor ef marka má þróun skoðanakannana síðustu mánuði.

Samfylkingin er núna með 20 þingmenn eftir að hafa fengið tæplega 30% fylgi á landsvísu í kosningunum 2009. Flokkurinn hefur á undanförnum mánuðum verið að mælast með um 20% fylgi á landsvísu í Þjóðarpúlsi Capacent, nú síðast 22% fylgi í október. Miðað við þá niðurstöðu, þegar horft er til fylgis flokkanna í einstaka kjördæmum, myndi Samfylkingin tapa fjórum þingmönnum.

Í gær fóru fram prófkjör hjá Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi (Kraganum) og í Norðausturkjördæmi.

Kristján L. Möller, fv. ráðherra, tryggði sér nokkuð örugglega 1. sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í gær. Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa og fv. fréttakona hjá RÚV, kemur ný inn á lista og lenti í öðru sæti prófkjörsins. Erna skákaði þannig þingmönnunum Jónínu Rós Guðmundsdóttur, sem lenti í þriðja sæti prófkjörsins, og Sigmundi Erni Rúnarssyni sem féll niður í fjórða sæti. Sigmundur Ernir var í öðru sæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar árið 2009.

Samfylkingin hefur í dag þrjá þingmenn í kjördæminu og samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Capacent heldur flokkurinn þeim þingmannafjölda. Ef fer sem horfir mun Sigmundur Ernir Rúnarsson falla af þingi í vor. Bæði Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn eru þó ekki langt frá því að hirða þriðja þingmanninn til sín og ef marka má Þjóðarpúlsinn nokkra mánuði aftur í tímann stendur þriðji þingmaður Samfylkingarinnar mjög tæpt. Fari svo að flokkurinn fái einungis tvo þingmenn mun Jónína Rós einnig falla af þingi.

Baráttan í Kraganum um helgina fór líklega ekki framhjá nokkrum áhugamanni um stjórnmál á Íslandi. Bæði Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir sóttust eftir 1. sæti á lista Samfylkingarinnar og að lokum hafði Árni Páll betur. Katrín lenti í 2. sæti listans. Þá lentu alþingismennirnir Magnús Orri Schram og Lúðvík Geirsson í 3. og 4. sæti prófkjörsins. Vegna reglna flokksins um jöfn kynjahlutföll í fjórum efstu sætum listans færist Margrét Gauja Magnúsdóttir, sem lenti í 5. sæti, upp í 4. sæti en Lúðvík niður í það fimmta.

Samfylkingin hefur í dag fjóra þingmenn í kjördæminu og hefur síðustu mánuði haldið þeim fjölda miðað við Þjóðarpúlsinn. Í Þjóðarpúlsinum í október tapar flokkurinn hins vegar einum manni og fengi þá þrjá þingmenn kjörna. Hvað sem líður sveiflum milli mánaða er óhætt að segja að flokkurinn sé líklegri til að halda fjórum mönnum á þingi frekar en að ná þeim fimmta inn, þó allt geti auðvitað gerst í pólitíkinni. Þannig má nær öruggt telja að Lúðvík Geirsson falli af þingi í vor og að Margrét Gauja sé þá í baráttusæti listans.

Þetta er í annað sinn í röð sem Lúðvík endar í 5. sæti listans eftir að hafa lent í 4. sæti í prófkjöri. Í prófkjöri Samfylkingarinnar í mars 2009 atti hann kappi við Árna Pál Árnason um oddvitasæti en var í raun gjörsigraður og lenti þá í fjórða sæti. Katrín Júlíusdóttir lenti þá í 2. sæti (sætinu sem hún óskaði eftir) og Þórunn Sveinbjarnardóttir í 3. sæti. Lúðvík bað sjálfur um að vera færður niður í 5. sæti sem þá var talið vera baráttusæti fyrir flokkinn og Magnús Orri Schram, sem lent hafði í 5. sæti, var færður upp í það fjórða. Svo fór að flokkurinn fékk fjóra þingmenn og Lúðvík því 1. varaþingmaður flokksins í kjördæminu. Þórunn sagði sem kunnugt af sér þingmennsku á síðasta ári og tók Lúðvík því við þingsæti hennar.