Íslenska þjóðfylkingin skilaði ekki inn framboðslistum í Reykjavíkurkjördæmunum. Frestur til þess að skila inn framboðslistum rann út á hádegi. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Oddvitar flokksins í Reykjavíkurkjördæmanna, Gunnlaugur Ingvarsson og Gústaf Níelsson, drógu sig nýverið til baka. Flokkurinn náði í kjölfarið ekki að skila meðmælalista til kjörstjórnar.

Íslenska þjóðfylkingin skilaði þó frambjóðenda- og meðmælalista inn fyrir Suður- Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi.

Haft er eftir Helga Helgasyni, formanni Íslensku þjóðfylkingarinnar, að oddvitar flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum hafi unnið skemmdarverk á flokknum og að hann hafi þurft að hefja undirskriftasöfnun á nýjan leik eftir að oddvitarnir hættu við framboð.