Ríkisskattstjóri, Skúli Eggert Þórðarson, hefur verið kjörinn ríkisendurskoðandi til sex ára. „Ég vænti góðs af nýja starfinu, en fyrsta verkefnið verður að kynna mér stöðu mála,“ segir Skúli Eggert sem er þakklátur fyrir það traust sem þingið hefur veitt honum.

„Ég hef unnið við skattframkvæmd allt frá árinu 1981, fyrst vann ég við yfirferð framtala, svo fór ég í rannsóknir hjá ríkisskattstjóra, síðan í eftirlit. En frá því að ég tók að mér að leiða embættið má segja að ég sé kominn meira í mannauðsmálin og að sjá til þess að fjármálalegur rekstur embættisins sé í samræmi við lög og fyrirmæli. Aðalverkefnin eru þó alltaf stjórnun, skipulagning og stefnumótun.“

Skúli Eggert er þó ánægður með að hafa fengið tækifæri til að leiða nokkur stór verkefni á vegum embættisins. „Við höfum lagt á það áherslu að gera stofnunina mjög nútímavædda á íslenskan mælikvarða, fyrst og fremst með aukinni þjónustu við okkar viðskiptavini, það er þjóðinni,“ segir Skúli Eggert sem nefnir rafræn skattframtöl sem dæmi um framfarir.

„Einnig má nefna rafræna fyrirtækjaskrá, Hnappinn, það er rafrænan flutning upplýsinga úr ársreikningaskrá og svo auðvitað Leiðréttinguna, sem var fyrsta stóra verkefnið í stjórnsýslu á Íslandi sem var algerlega unnin rafrænt. Þar voru engar umsóknir eða svör á pappír, en 145 þúsund lán voru endurreiknuð og við sendum 924 þúsund tölvupósta vegna þeirra.“

Ríkisskattstjóri hefur ítrekað verið ofarlega á lista SFR yfir stofnanir ársins, þar af tvö ár í röð í efsta sæti. „Við höfum byggt upp þá mannauðsstefnu hérna að vera ekki mikið að anda ofan í hálsmálið á hverjum einasta starfsmanni, öðruvísi en að vera viss um að verkferlum sé fylgt og farið eftir fyrirmælum,“ segir Skúli Eggert.

Skúli hefur verið giftur Dagmar Elínu Sigurðardóttur bókara í hartnær fjóra áratugi en saman eiga þau þrjá uppkomna syni. Sjálfum þykir honum gott að nýta hádegið í göngutúra, en þess utan nýtur hann tímans utan vinnu með fjölskyldunni og við lestur bóka.

„Ég legg mikla áherslu á að rækta líkamann, göngutúrinn í hádeginu gefur mér innblástur fyrir seinni hluta vinnudagsins enda gott að fá súrefni og maður leysir fullt af málum. Síðan lýk ég yfirleitt starfsdeginum þegar heim er komið með gönguferð og þá næ ég að tæma hugann fyrir kvöldið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .