Kirkjan var í margar aldir valdamesta stofnun á Íslandi og skipar ríkiskirkjan sinn sess í lífi flestra landsmanna enn þann dag í dag. Enn er mikill meirihluti landsmanna skráður í Þjóðkirkjuna – nánar tiltekið rúmlega 70% landsmanna samkvæmt nýjustu tölum.

Árið 1907 gerðu kirkjan og ríkið með sér samkomulag þar sem kirkjan afhenti ríkinu jarðeignir sínar gegn því að ríkið myndi greiða laun presta. Á þeim tíma átti kirkjan verulegar fasteignir og var um umtalsverð verðmæti að ræða.

Ótímabundnar greiðslur

Stærstan hluta tuttugustu aldar fór ríkið með þessar jarðir eins og um ríkiseignir væri að ræða, en það var álitaefni hvort svo væri í raun og veru. Árið 1984 komst kirkjueignanefnd að þeirri niðurstöðu að þær eignir sem höfðu verið afhentar árið 1907 væru í raun enn kirkjueignir og styrkti þetta þá kröfu kirkjunnar að enn ætti eftir að greiða fyrir þær.

Árið 1997 ákváðu ríkið og kirkjan að gera með sér samkomulag um endanlega afhendingu mörg hundruð kirkjujarða. Það torveldaði þær samningaviðræður að lagaleg óvissa var um gríðarlegan fjölda eigna og landspildna.

Í stað þess að leggja sjálfstætt verðmat á hverja eign fyrir sig og greiða kirkjunni fyrir þær var ákveðið að ríkið myndi greiða laun tiltekins fjölda presta og embættismanna þjóðkirkjunnar gegn því að eignast endanlega allar jarðir kirkjunnar.

Samningurinn er athyglisverður fyrir þær sakir að engin ákvæði eru um hvenær greiðslum ríkisins eigi að ljúka.

Þriðjungs niðurskurður

Sé framlögum til kirkjugarða bætt við – en þau eru rúmur milljarður króna í ár – námu ríkisframlög til kirkjunnar um 5,4 milljörð¬ um króna í fyrra. Framlögin jukust um 400 milljónir milli ára á raunvirði. Sé litið lengra aftur í tímann hafa ríkisútgjöld til Þjóðkirkjunnar þó minnkað verulega að raunvirði.

Þegar mest var, árið 2007, greiddi ríkið um 7,4 milljarða króna til kirkjunnar á verðlagi síðasta árs. Síðan þá hafa ríkisframlög til kirkjunnar því minnkað um næstum því 30% á raunvirði.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .