Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu fyrir árið 2015 var útflutningur á þjónustu 562,5 milljarðar en innflutningur á þjónustu 371,8 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 190,7 milljarða. Það er aukning milli ára, en jöfnuðurinn var jákvæður um 134,6 milljarða á árinu 2014.

Samkvæmt sömu heimildum var vörujöfnuður og þjónustujöfnuður íslensku þjóðarinnar samanlagt jákvæður um 155,2 milljarða króna. Þetta er vegna þess að vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 35,5 milljarða króna, sem dragast frá fyrrnefndum 190,7 milljarða króna þjónustujöfnuði.

Þar af skiluðu samgöngur 141,2 milljarða króna afgangi og ferðaþjónusta skilaði 77 milljarða afgangi. Á móti nam halli á annarri viðskiptaþjónustu 60 milljörðum. Hér að neðan má sjá súlurit þar sem jöfnuðurinn fyrir árin 2014-2015 er tekinn saman. Hafa ber í huga að tölur Hagstofunnar eru til bráðabirgða og verða uppfærðar með tíð og tíma.