*

mánudagur, 21. janúar 2019
Innlent 18. mars 2018 15:15

Þórdís Kolbrún nýr varaformaður

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins með 95,7% atkvæða. Þá var Bjarni Benediktsson endurkjörinn formaður og Áslaug Arna kjörin ritari.

Ritstjórn
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í Laugardalshöll með 95,7% gildra atkvæða. Þórdís Kolbrún var ein í framboði og fékk 720 atkvæði af 753 gildum atkvæðum, en greidd atkvæði voru 772.

Þórdís Kolbrún hefur verið alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi síðan árið 2016.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður í Reykjavík norður og formaður utanríkismálanefndar, hefur gegnt embætti varaformanns flokksins frá því í september 2017. Var það tímabundin ráðstöfun fram að landsfundi vegna andláts Ólafar Nordal, varaformanns flokksins.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, var endurkjörinn formaður Sjálfsæðisflokksins með 96,2% atkvæða. Bjarni var kjörinn með 710 atkvæðum, en aðrir fengu 28 atkvæði. 762 tóku þátt í kosningunni en gild atkvæði voru 738.

Áslaug Arna var kjörin ritari Sjálfstæðisflokksins með rúmlega 93% atkvæða. Fékk Áslaug 664 atkvæðu af 710 gildum atkvæðum, en greidd atkvæði voru 752. Áslaug hefur verið ritari flokksins síðan 2015.