*

fimmtudagur, 23. maí 2019
Innlent 16. júlí 2014 13:49

Þórdís og Ellert kaupa Lifandi markað

Skiptastjóri hefur selt veitingastaði og verslanir Lifandi markaðar. Fyrirtækið hefur verið brotið upp í einingar.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

„Við erum bjartsýn og glöð, ætlum að fara aftur í grasrótina og bjóða upp á ferskan og lífrænan mat sem verður eldaður í Borgartúninu,“ segir Þórdís Björk Sigurbjörnsdóttir en hún og maður hennar, Ellert Aðalsteinsson, hafa í gegnum einkahlutafélagið EE Developments, keypt rekstur veitingastaðarins og verslunarinnar Lifandi markaðar í Borgartúni. Þau kaupa vörumerkið og reksturinn í Borgartúni af skiptastjóra þrotabús Lifandi markaðar. Fyrirtækið rak áður tvo aðra veitingastaði og verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Skiptastjóri félagsins hefur sömuleiðis selt þá til annarra aðila. 

Auður I, sjóður í rekstri Auðar Capital, keypti rekstur Lifandi markaðar árið 2009. Auður Capital hefur síðan þá sameinast Virðingu. Arnar Harðardóttir, stjórnarformaður Lifandi markaðar, sagði í samtali við VB.is í vikunni aukna samkeppni um lífrænar vörur og samdrátt í efnahagslífinu hafa valdið því að reksturinn hafi ekki staðið undir sér og því ákveðið að setja fyrirtækið í þrot. Skiptastjóri tók við þrotabúinu í byrjun mánaðar.

Ætla að opna aftur á mánudag

Þórdís er ánægð með kaupin í samtali við VB.is og bjartsýn á að reksturinn muni ganga vel þar sem fjöldi fólks bæði vinni í Borgartúninu og nágrenni götunnar auk þess sem líkur eru á að fjöldi fólks flytjist þangað á næstunni. 

Þá segir Þórdís kröfuna í dag á ferskan og lífrænt ræktaðan mat. Hann var áður eldaður fyrir veitingastaði Lifandi markaðar í Hlíðarsmára. Í kjölfar breytinga á eldhúsinu hjá Lifandi markaðar í Borgartúni er stefnt á að elda matinn framvegis þar.

Verslunin og veitingastaðurinn í Borgartúni er lokaður í dag. Þórdís segir breytingar standa yfir auk þess sem verið sé að ræða við starfsfólk. Stefnt er á að opna verslunina aftur á mánudag. 

Viðbót:

Haft er eftir Þórdísi í tilkynningu sem verið var að senda út í tengslum við kaupin að mikil tækifæri felist í því að reka veitingastað og verslun sem gerir út á þennan markað. „Jafnvel þótt sumir framleiðendur lífrænna vara hafi átt undir högg að sækja þá erum við sannfærð um að sú vitundarvakning sem orðið hefur á meðal íslenskra neytenda muni breiðast enn frekar út,“ segir Þórdís Björk.

 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim