Hildur Ómarsdóttir hefur tekið við nýju starfi forstöðumanns þróunar- og markaðssviðs Icelandair hótela.

Hildur hefur starfað hjá Icelandair hótelum frá árinu 2004. Fyrst sem hótelstjóri þáverandi hótels Loftleiða, og síðar sem forstöðumaður sölu- og markaðssviðs.Hún hefur tekið virkan þátt í þeim miklu breytingum sem orðið hafa á félaginu á undanförnum árum og m.a. stýrt endurskilgreiningu vörumerkja, mörkun nýrra eininga félagsins ásamt því að vinna að hugmyndavinnu og þróun hótelanna og þjónustu þeirra með öðrum stjórnendum félagsins. Hildur hefur einnig stýrt söludeild félagsins á tímum mikilla breytinga í ferðaþjónustu á undanförnum árum.

Hildur lauk MBA námi frá HR árið 2004, auk þess að vera með B.A. próf í ensku og spænsku, og hefur starfað á ýmsum sviðum ferðaþjónustu í rétt tæp 20 ár. Hildur situr einnig í stjórn Into the Glacier f.h. Icelandair Group.

Þórður tekur við af Hildi

Þórður Bjarnason tekur við sem forstöðumaður sölu- og bókunarsviðs af Hildi. Þórður hóf nýverið störf hjá fyrirtækinu sem stjórnandi innleiðingar á þjónustukerfum (CRM kerfi) og uppfærslu bókunar- og tekjustýringarkerfa, en hann mun áfram sinna þeim verkefnum.

Áður en Þórður gekk til liðs við Icelandair hótelin, starfaði hann í nokkur ár hjá Primera Travel Group, fyrst sem framkvæmdastjóri flugrekstrasviðs, síðar framkvæmdastjóri sölu-og þjónustusviðs og svo sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Jafnframt hefur hann starfað fyrir Icelandair sem markaðsstjóri fyrir Mið-Evrópu. Þórður kom einnig að stefnumótun fyrir Radisson Blu Hotels í Suður-Evrópu og Afríku og sem F&B Manager hjá Sheraton Park Lane í London.

Þórður er með MCF gráðu í fjármálum fyrirtækja og BSc í viðskipta-og þjónustufræðum frá Ecole Hoteliere de Lausanne í Sviss.