Þórhallur Örn Hinriksson, stjórnarformaður ALM verðbréfa og fyrrverandi knattspyrnumaður hefur keypt ferðaþjónustuþorpið Laugar í Sælingsdal að því er Fréttablaðið greinir frá. Um er að ræða gamlan grunnskóla með heimavist sem staðsett er nokkuð utan við Búðardal á leiðinni vestur á firði á vinstri hönd, áður en keyrt er upp Svínadalinn.

Dalabyggð keypti skólann af ríkinu árið 2013 en auglýsti hann til sölu í september árið 2016, en nú hefur sveitarstjórn Dalabyggðar nú samþykkt tilboð Arnarlóns, félags Þórhalls, upp á 460 milljónir króna í jörðina. Innifalin eru jarðhitaréttindi, tjaldsvæði, 20 herbergja hótel og aðrar fasteignir, þar á meðal 26 herbergja heimavist, íþróttamiðstöð og 25 metra löng sundlaug.

Alls eru fasteignir á svæðinu um 5 þúsund fermetrar en tilboðið barst sveitarfélaginu í lok október en var samþykkt þann 18. desember. Sveinn Pálsson sveitarstjóri Dalabyggðar segir að fyrirtækið lýsi því að þau stefni að heilsársrekstri hótelsins á staðnum, sem nú er einungis opið í tvo og hálfan mánuð á ári hverju.

„Icelandair-hótelin eru með samning og eiga tvö ár eftir og það þarf að gera þetta í samvinnu við þá. Ferðamönnum hér hefur fjölgað um vor og haust og eðlilegt að menn horfi til þess að reyna að auka þjónustuna,“ segir Sveinn en ekki voru allir sammála því að taka kauptilboðinu í sveitarstjórninni vegna annarra verðhugmynda.

„Hér er sveitarstjórn búin að setja sér þá stefnu fyrir löngu síðan að það þyrfti að byggja upp íþróttamannvirki við grunnskólann í Búðardal og til þess að það sé hægt þarf að selja eignir. Ég held að það geti allir verið sammála um að við vildum fá meira fyrir þetta en sennilega er gamli sannleikurinn sá að hlutirnir eru ekki verðmætari en það sem einhver er til í að borga fyrir þá.“