Steinþór Skúlason forstjóri SS segir að þrátt fyrir að fyrirtækið hafi aukið framleiðslu á þorramat um 5% frá fyrra ári sé hann nú allur uppseldur að því er Morgunblaðið greinir frá.

Ólafur Már Þórisson sölu- og markaðsstjóri Kjarnafæðis segir að í ár, líkt og síðustu tvö ár, hafi verið aukning í sölu á þorramat hjá fyrirtækinu, eða um 15% á hefðbundnum þorramat. Aukningin sé svo enn meiri ef saltkjöt og hangikjöt séu talin með, en nú þegar hafi hrútspungar, blóðmör og fleiri vörur selst upp hjá Kjarnafæði.

„Það er ótrúlegt hvað yngri kynslóðin er farin að taka við sér,“ segir Ólafur Már og segir ljóst að meira af pungum verði sett í súr næsta haust. „Auk þess má finna vel fyrir aukningu á þorrablótum á vegum íþróttafélaga og annarra. Ef ekki væri fyrir þessi blót hefði maður haldið að salan ætti frekar að vera að dvína en við fögnum því að sjálfsögðu að þróunin er í þessa átt.“