Á verstöðvum víða um land er að finna þorskhausa sem söfnuðust þar upp í hrúgum öldum saman, enda voru þeir sá hluti fisksins sem Íslendingar gátu ekki selt til útlanda.

„Fiskimenn hér á landi sérhæfðu sig í þorskveiðum mjög snemma,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, sem er til húsa í Bolungarvík. „Þessar veiðar í atvinnuskyni voru stundaðar alveg frá því um 1200 eða 1300 og þá fyrst og fremst til að bregðast við eftirspurn frá Evrópu. Þetta gerðu þeir í samkeppni við Evrópuþjóðir því Englendingar, Hollendingar og Þjóðverjar voru í þessum veiðum líka.“

Guðbjörg Ásta er líffræðingur en svo vill til að eiginmaður hennar er Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur, sem jafnframt er starfsmaður á Rannsóknarsetrinu og vinnur þar meðal annars að fornleifarannsóknum á gömlum verstöðvum hér á landi. Þar er að finna áþreifanlegar minjar um þorskveiðar Íslendinga fyrr á öldum, ekki síst höfuðbein þorska í stórum stíl

„Fiskurinn var þurrkaður í skreið því hana gátum við selt en hausarnir urðu eftir á veiðistaðnum og safnast þar saman öld eftir öld. Það eru tugir þúsunda þorskbeina á þessum verstöðvum,“ segir Guðbjörg Ásta.

Þessir höfuðbein hafa reynst mikil náma upplýsinga fyrir líffræðirannsóknir, enda má lesa úr þeim ýmsar vísbendingar um sögu þorskstofnsins við Ísland margar aldir aftur í tímann.

Litla ísöldin
„Við sjáum að hér var mikil veiði allt frá því um 1100 og fram til 1600, en eftir það sér maður minna magn af beinum, til dæmis hér á Vestfjörðum. Það er eins og það komi smá bil í veiðarnar,“ segir hún. „Sagnfræðilegar heimildir styðja þetta því þær sína fram á að á sama tíma minnka veiðar Íslendinga. Og þetta var kveikjan að rannsóknum okkar. Við vildum reyna að finna skýringar á þessari breytingu sem varð skyndilega á veiðunum. Hvort hana megi rekja aðallega til pólitískra atburða til dæmis eða markaðssamkeppni, eða jafnvel yfirburða evrópskra fiskiskipa. Eða hvort það hafi verið eitthvað sem kom fyrir fiskinn sjálfan.“

Vitað er að við lok miðalda lauk hlýskeiði miklu og við tók „litla ísöldin“ svonefnda, þegar hitastig lækkaði með harðindum af ýmsu tagi. Guðbjörg Ásta vonaðist til að finna staðfestingu á þessu með rannsóknum sínum á þorskbeinum, sem hún hefur nú árum saman unnið að í samstarfi við marga aðra vísindamenn bæði hér á landi og erlendis.

„Við byrjuðum á að skoða DNA þorskbeina, og niðurstöðurnar bentu greinilega til þess að verulegar breytingar hafi orðið í kringum 1550.“

Fleiri vísbendingar
Árið 2014 birti hún grein um þessar fyrstu rannsóknir í vísindatímaritinu Proceedings of the Royal Society, og voru meðhöfundar hennar Kristen M. Westfall, Ragnar Edvardsson og Snæbjörn Pálsson.

Guðbjörg Ásta og félagar hennar hafa haldið rannsóknum sínum ótrauð áfram og víkkað þær út. Til viðbótar erfðagreiningu beinanna hafa þau skoðað stöðugar efnasamsætur bæði kolefnis og niturs, og þá í fleiri tegundum en aðeins þorski. Fyrstu niðurstöður úr þeim rannsóknum eru komnar og benda þær einnig til þess að breytingar hafi orðið á vistkerfi sjávar um það leyti sem miðöldum lýkur og siðaskiptin hefjast.

„Þetta er líka sá tími þar sem maður er farinn að sjá töluverð áhrif af kólnun í hafinu, þegar litla ísöldin kemur. Á sama tíma erum við að sjá í sagnfræðilegum heimildum að það hafa verið hér erfið hafísár. Kólnunin hefur verið það mikil að það gæti hafa breytt vistfræðilegum eiginleikum í hafinu.“

Almennt er talið að þegar breytingar verða á hitastigi hafsins hér í kring geti fiskurinn fært sig til, þannig getur honum hafa fækkað hér við land með augljósum afleiðingum fyrir fiskveiðar Íslendinga.

Ómetanlegur efniviður

Til viðbótar þessum erfðarannsóknum hafa Guðbjörg Ásta og félagar beint sjónum sínum að þorskkvörnum sérstaklega.

„Á verstöðinni í Breiðuvík er óvanalega góð varðveisla beina og því mikið magn af þorskkvörnum, og það er ómetanlegur efniviður. Við getum bæði séð út úr þeim aldur og svo getum við bakreiknað vöxt fiskanna. Útfrá vaxtagreiningum sjáum við ekki miklar sveiflur í vaxtarmynstri þorsks aftur til ársins 1000, nema á þessu tímabili, sautjándu öldinni, þegar vöxtur á seiðastigi minnkar.“

Hún segir von á ritrýndri grein um þær rannsóknir núna fyrir áramótin. Að auki eru núna að fara af stað nýjar rannsóknir á kvörnunum sem snúast um að skoða ferðir þorsksins um heimshöfin, þar sem áfram er notast við efnamörkin.

„Við vitum að sumir þorskar fara í langar fæðugöngur á meðan aðrir halda sig á grunnsævi alla tíð. Út frá stöðugum efnasamsætum súrefnis í kvörnum getum við metið hitastig sjávar og getum þannig séð hvernig hver einstakur þorskur ferðaðist, við hvaða hita hann lifði alveg frá seiðastigi til dauða. Þetta mun gefa okkur miklar upplýsingar um stöðugleika í fari þorsksins.“

„Þetta er tvímælalaust efniviður sem býður upp á mikla möguleika til að skilja áhrif umhverfisbreytinga á fiskistofna. Við erum með góðar gagnaraðir frá 20 öld og höfum verið gjörn á að halda að það sé náttúrulegt ástand, en það er líklegt að veiðar hafi verið farnar að hafa áhrif á stofnana miklu fyrr.“

Hún segir það hafa verið vandamál hér á Íslandi hve fáir vísindamenn hafa verið í rannsóknum á þessu sviði.

„Hafró sinnir auðvitað grunnrannsóknum og stofnstærðarmati, en það eru svo margir aðrir þættir sem koma inn í sem þarf að rannsaka.“