Þorskurinn er í aðalhlutverki á framhlið á nýjum 200 króna seðli í Noregi sem tekinn verður í notkun í lok mánaðarins. Síldin og netamöskvar prýða seðilinn einnig, að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins.

Norðmenn eru að endurhanna peningaseðla landsins og eru myndir á þeim tengdar hafinu. Þorskurinn á að minna á að hafið sé uppspretta matar.  Þetta er í fyrsta sinn sem seðlarnir eru án mynda af þjóðþekktum Norðmönnum. 100 króna seðillinn og 200 króna seðillinn verða formlega gefnir út 30. maí en aðrir seðlar koma seinna.