Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra talaði á fasteignaráðstefnu í Hörpu í morgun. Í frétt Ríkisútvarpsins um málið segir að ráðherrann boði einföldun á regluverki sem miði að því að að fjölga litlum íbúðum. Hann bendir enn fremur á að húsnæðisvandinn leysist ekki nema sveitarfélögin nái saman um aðgerðir.

Þorsteinn sagði að ráðuneyti þurfi að fara yfir skipulagslöggjöf, byggingarreglugerð og lög sem gilda um gjaldtöku af lóðum til að gera sér grein fyrir hvað standi í vegi fyrir því að litlar hagkvæmar íbúðir séu byggðar.

Ráðherra bendir enn fremur á að ríkið þurfi að vinna saman með sveitarfélögum til að tryggja framboð á lóðum. Þorsteinn boðar lagafrumvarp sem fæli Íbúðarlánasjóði að greina stöðuna á húsnæðismarkaði.