Þorsteinn Arnalds hefur tímabundið verið ráðinn í stöðu áhættustjóra hjá Íbúðalánasjóði og hefur hann samhliða sagt sig úr stjórn sjóðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar kemur fram að Þorsteinn muni veita áhættustýringu Íbúðalánasjóðs forstöðu frá og með 1. október næstkomandi. Hann hefur setið í stjórn sjóðsins í rúmt ár.

Um er að ræða tímabundna ráðningu vegna brotthvarfs fyrri áhættustjóra sem hefur ráðið sig til banka í Danmörku. Í tilkynningunni frá Íbúðalánasjóði segir að verkefni sjóðsins á þessu sviði séu afar brýn um þessar mundir og mikilvægt að brúa bilið. Starf áhættustjóra verður auglýst síðar í haust og mun Þorsteinn gegna starfinu þar til ráðið hefur verið í það með formlegum hætti.

Þorsteinn starfaði við greiningu og þróun fasteignamatsaðferða hjá Þjóðskrá Íslands á árunum 2004-2012. Hann starfaði við áhættustýringu hjá Arion banka frá 2012-2014 en kom til Íbúðalánasjóðs frá Persónuvernd.

Þorsteinn er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í tölfræði frá University College í Lundúnum.