Um eitt hundrað landsfundarfulltrúar voru skráðir á fyrsta landsfund Viðreisnar sem haldinn var í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ um helgina að því er Morgunblaðið hefur eftir Þorsteini Víglundssyni nýkjörnum varaformanni flokksins.

Heimasíða flokksins birti í gær nákvæmar tölur og skráningu og kosningaþátttöku á landsþinginu en áður hafði Ásdís Rafnar, formaður kjörstjórnar sagt að ákveðið hefði verið „að gefa ekki upp hversu mörg atkvæði voru greidd á fundinum eða hversu margir sóttu hann“.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem starfað hefur sem formaður Viðreisnar síðan í aðdraganda síðustu kosninga, þótt hún hafi ekki verið varaformaður áður, var kosinn formaður með 95,3% atkvæða. Þorsteinn, sem kjörinn var með 61 atkvæði, eða 98,5% atkvæða eins og upphaflega hafði einungis verið gefið upp var spurður hvers vegna ekki hefði mátt gefa upp fjöldann til að byrja með.

Sagði hann svarið ekkert rosalega flókið.„Það voru um eitthundrað manns sem skráðu sig á þingið, sem við vorum bara mjög ánægð með, þar sem þingið var haldið utan höfuðborgarsvæðisins, og ég held að um sjötíu manns hafi tekið þátt í kjörinu,“ sagði Þorsteinn sem sagðist ánægður með þátttökuna en flokkurinn fékk hins vegar 13.122 atkvæði í síðustu alþingiskosningum.

„Við horfðum á mun eldri flokk en okkur halda þing hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það hafi verið í kringum 200 manns sem kusu á þingi Framsóknarflokksins, ekki rétt?“