Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er með réttarstöðu sakbornings í máli sem sérstakur saksóknari er með til rannsóknar.

Þorsteinn var í skýrslutöku vegna Stím-málsins svokallaða, sem sérstakur saksóknari höfðar á hendur fyrrverandi stjórnenda Glitnis og Saga Capital.

Áður en skýrslutakan hófst tilkynnti dómsformaður, Símon Sigvaldsson, honum að vegna réttarstöðu hans sem sakbornings í öðru máli bæri honum ekki skylda til að svara spurningum sem gætu mögulega varpað á hann sök í öðrum málum.

Þorsteinn starfaði sem stjórnarformaður Glitnis árið 2008. Mögulegt er að hann hafi stöðu sakbornings í máli sem tengist Glitni og er til rannsóknar hján embætti sérstaks saksóknara.

Stím-málið í vinnslu

Stím-málið höfðar embætti sérstaks saksóknara á hendur Lárusar Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, ásamt einum stjórnanda bankans, Jóhannesi Baldurssyni, og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, fyrrverandi forstjóra Saga Capital.

Eru þeir ákærðir fyrir umboðssvik í tengslum við lánveitingu Glitnis, þar sem félagið Stím fékk 20 milljarða að láni frá bankanum til að kaupa hlutabréf í Glitni og FL Group árið 2007. Viðskiptablaðið fjallaði um það áður.

Stím-málið snýst um það að Stím keypti hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir tæplega 25 milljarða króna þann 14. nóvember 2007 af Glitni. Um 20 milljarðar króna voru fengnir að láni hjá Glitni og viðskiptin voru teiknuð upp af starfsmönnum bankans.

Vildarviðskiptavinum var síðan boðið að leggja fram 10% eiginfjárframlag og vera með í Stím. Með þessu var Glitnir að tæma hina svokölluðu veltubók sína, en bankinn mátti ekki eiga meira en 5% hlut í sjálfum sér.