Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefur borist kæra frá lögmanni Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Þorsteinn Már fer fram á að embættið hefji rannsókn á meintum brotum Arnors Sighvatssonar, aðstoðarseðlabankastjóra og Ingibjargar Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, gagnvart Þorsteini. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Meðal þess sem kemur fram í kærunni er að starfsmenn Seðlabankans hafi: „leitast að koma því til leiðar með rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullnægjandi upplýsingum að kærandi yrði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sem getur varðar fangelsi allt að tveimur árum,“ segir í frétt Morgunblaðsins.

Seðlabankinn kærði Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum í september árið 2013. Áður hefur komið fram að Samerji hugðist leita réttar síns. Hér er hægt að sjá yfirlit yfir ástæður þess.

Kærandi telur að þau hafi misnotað stöðu sína sem opinberir starfsmenn. Einnig vill Þorsteinn Már láta rannsaka aðra starfsmenn Seðlabankans í málinu, þar með talinn Seðlabankastjóra, Má Guðmundsson.