Gengið hefur verið frá skipan nefndar til að móta tillögur um hvernig tryggja megi sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Formaður nefndarinnar er Þorsteinn Pálsson sem skipaður er af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorsteinn gegndi embætti sjávarútvegsráðherra í átta ár frá 1991-1999. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Nefndin er að öðru leyti skipuð samkvæmt tilnefningum allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Nefndin skal skila tillögum sínum til ráðherra í formi lagafrumvarps eigi síðar en 1. desember 2017.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að unnið verði að mati á þeim kostum sem tækir eru til gjaldtöku fyrir afnot sjávarauðlindarinnar, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, í því skyni m.a. að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.

Markmiðið er að tillögur nefndarinnar geti orðið grundvöllur að þverpólitískri og víðtækri sátt í samfélaginu um sjávarútveginn og þar með grunnur að auknum stöðugleika í starfsumhverfi hans og tengdra greina til framtíðar.

Eftirtaldir sitja í nefndinni:

  • Hanna Katrín Friðriksson - fyrir Viðreisn
  • Logi Einarsson - fyrir Samfylkingu
  • Mörður Ingólfsson - fyrir Pírata
  • Páll Pálsson - fyrir Framsóknarflokk
  • Svandís Svavarsdóttir - fyrir VG
  • Teitur Björn Einarsson - fyrir Sjálfstæðisflokk
  • Theodóra S. Þorsteinsdóttir - fyrir Bjarta framtíð
  • Þorsteinn Pálsson, formaður