Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að Már Guðmundsson seðlabankastjóri eigi að víkja úr embætti vegna málatilbúnaðar Seðlabankans gegn Samherja að því er kemur í viðtali við Þorstein Má í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins . Eins og áður hefur verið greint frá felldi Hæstiréttur úr gildi 15 milljón króna stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum.

„Við höfum hrakið allar ásakanir Seðlabanka í gegnum árin og hann heldur því miður alltaf áfram,“ segir Þorsteinn Már í viðtalinu. „Fantaskapurinn hefur verið algjör og þeir hafa þá bara búið til ný mál á hendur okkur,“ bætti hann við.

Í svari Seðlabankans til fréttastofu RÚV kemur fram að að bankinn tjái sig ekki um málið fyrr en ákvörðun verði tekin hvort að dómi Héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar eður ei. Þorsteinn telur að málið hafa skaðað fyrirtækið og starfsmenn þess. Hann bendir á að starfsmenn hafi verið ásakaðir gegnum árin fyrir að gera hluti sem þeir gerðu ekki.

Þorsteinn hefur óskað eftir fundi með ráðamönnum og furðar sig á því að stjórnvöld hafi ekki gripið í taumana. Þorsteinn telur að Már Guðmundsson seðlabankastjóri eigi að víkja. „Már er búinn að reka þetta mál áfram að gríðarlegri hörku og fantaskap og að sjálfsögðu er löngu kominn tími til að maðurinn víki,“ sagði Þorsteinn.