Þorsteinn Víglundsson, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði að honum hugnaðist 95 prósenta lán til íbúðarkaupa illa og talaði um að það væri greinileg merki ofhitunar og bólumyndunar á fasteignamarkaði í Morgunútvarpi Rásar 2.

Þorsteinn sagði að við eigum að óttast bólueinkenni á fasteignamarkaði. Hann bendir á að framan af hafi fasteignaverð þróast í takt við kaupmáttaraukningu en nú er hægt að sjá skýr merki þess að hækkunin er umfram kaupmáttaraukningu og þrýstingurinn virðist vera mjög mikill.

95 prósent fjármögnun

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um það að seljendur íbúa við Kársnes bjóða 95% fjármögnun við kaup á íbúð. Íbúðaseljendurnir hyggjast lána kaupendum fyrir þremur fjórðu hlutum útborgunarinnar. Fyrirkomulag fjármögnunarinnar er með þeim hætti að seljandi íbúðanna veitir kaupendum lán sem nemur 15% af kaupverði og brúar þar með bilið frá 80% útlánaþaki flestra fjármálafyrirtækja.

Þorsteinn segir í viðtalinu að honum hafi ekki litist vel á tilhögunina til að byrja með og þegar hann hafi kynnt sér hana betur leist honum enn verr á hana, þegar hann áttaði sig á því að lánið væri með mjög háum vöxtum til mjög skamms tíma. „Þannig að þetta þýðir að þetta er mikil greiðslubyrði fyrir fólk,“ er haft eftir Þorsteini.

Félags- og húsnæðismálaráðherra segir jafnframt að við séum að byggja alltof stórt í dag fyrir ungt fólk sem er í startholunum. Hann telur það best að leysa vandann, annars vegar með því að tryggja framboð á lóðum og hins vegar með því að auka framboð á smærri íbúðum fyrir fólk til þess að þær séu á viðráðanlegu verði.