Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hyggst rita bréf fyrir ársfund Seðlabankans í apríl þar sem farið verður fram á að Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórunn Guðmundsdóttir, formaður bankaráðs Seðlabankans, biðjist afsökunar á framferði sínu í Samherja-málinu og á öðrum röngum ásökunum í nafni Seðlabankans. „Tel ég fundinn því síðasta tilefni fyrir seðlabankastjóra og bankaráðsformanns að biðja okkur starfsmenn Samherja, Aserta menn og aðra þá sem hann hefur í nafni Seðlabankans ásakað ranglega í gegnum árin, afsökunar. Eftir það mun málið vera í höndum lögmanna,“ segir Þorsteinn.

Sex ár eru síðan Seðlabankinn framkvæmdi húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál. Sérstakur saksóknari felldi málið niður árið 2015.

„Það tekur á að standa í baráttu í sex ár. Það tók á að horfa á fimm ókunnuga einstaklinga í fimm klukkustundir framkvæma míkróleit á skrifstofunni minni. Það tekur á að sitja undir tilhæfulausum ásökunum frá jafn valdamikilli stofnun og Seðlabankanum. Það tekur á að þurfa að þurfa að leiðrétta hver ósannindin á fætur öðrum í ásökunum bankans. Það tekur á að þurfa að eyða mörgum árum í að fá upplýsingar. Það tók á að missa frá sér góða samstarfsmenn,“ segir Þorsteinn Már í pistli á vef Samherja.

Þorsteinn telur yfir allan vafa hafið að Már og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri beri ábyrgð á því að saka sig og aðra innan Samherja ranglega um brot og kæra til lögreglu að ósekju. „Yfirhylmingin, þöggunin og leyndarhyggjan sem einkennt hefur málið undanfarin ár er hins vegar einnig á ábyrgð bankaráðsformanns. Bankaráð hefur lögum samkvæmt eftirlit með störfum seðlabankastjóra sem og eignum og rekstri Seðlabankans. Undir stjórn núverandi bankaráðsformanns hefur verið reynt að færa völd bankaráðs í hendur seðlabankastjóra og hlutverk bankaráðs afmarkað við það sem e.t.v. má bera saman við hlutverk áheyrnarfulltrúa,“ segir hann.