Franska fyrirtækið GlobeXplore hefur farið nýstárlegar leiðir í framleiðslu á matvörum úr þörungum og þangi. Það sýndi framleiðsluvörur sínar á sjávarútvegssýningunni í Brussel nýlega. Þar var meðal annars að finna perlur úr þörungum með bragði af mangó, ástríðuávexti, balsamediki og mörgum öðrum bragðtegundum.

GlobeXplore er með fjögur vörumerki. Christine Le Tennier er vörumerki fyrir matgæðinga sem sækjast eftir nýjungum í eldamennsku, Algae sem framleiðir vörur  fyrir smásöluaðila og dreifingaraðila, Algae Gastronomy sem framleiðir vörur fyrir stóreldhús og Algae Nature sem framleiðir vörur inn á heilsuvöru- og lífræna markaðinn.

Þangið er allt handslegið á fjöru á ströndinni undan Bretaníuskaga og flutt innan 24 stunda til vinnslu í verksmiðju fyrirtækisins í Rosporden. Þar er það þvegið, saltað og umbreytt í pasta, olíur, edik, sósur, sinnep, mauk, hlaup og margt annað.

En það eru bragðperlurnar sem vekja hve mesta athygli. Þær eru unnar úr kombu sjávarþangi og gegna því hlutverki að skreyta rétti. Þær koma sem fyrr segir í fjölda bragðtegunda og má nota með ostrum, hráum fiski og jafnvel í hanastél. Perlurnar innihalda lífvirk efni sem er að finna í þörungum og þangi og eru því eftirsóttar meðal þeirra sem hafa gengist nýju matvælabyltingunni á hönd. Nýjasta afurðin er olífuolíuperla úr kombu sjávarþangi.