Þórunn Guðmundsdóttir, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, ætlar ekki að tjá sig um ummæli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, um að stjórnendur Seðlabankans eigi að sæta ábyrgð vegna vanhæfis. Þetta segir hún í samtali við Morgunblaðið .

„Ég er búin að láta bankaráðið vita að ég er vanhæf í þessu máli og mun víkja sæti þegar þetta kemur upp á fundi bankaráðs. Samherji er viðskiptavinur lögmannsstofu minnar og þó ég hafi aldrei unnið fyrir fyrirtækið mun ég víkja og ekki fjalla um málið,“ segir Þórunn en hún er hluthafi í lögmannsstofunni Lex.

Fyrir helgi felldi embætti sérstaks saksóknara niður mál á hendur Þorsteini og nokkrum starfsmönnum Samherja sem varðaði meint brot á lögum um gjaldeyrismál. Skrifaði Þorsteinn bréf til starfsmanna Samherja í gær þar sem hann sagði meðal annars að Seðlabankinn, sem kærði málið til sérstaks saksóknara, hefði sýnt af sér fordæmalausa misbeitingu valds við málsmeðferðinga og yrði að axla ábyrgð vegna þess.