Þorvaldur Ingvarsson forstöðumaður rannsóknar- og þróunardeildar stoðtækjafyrirtækisins Össurar hefur ákveðið að hætta störfum fyrir Össur en hann hefur leitt deildina undanfarin fimm ár. Þorvaldur mun þó áfram sinna ráðgjafarstörfum við rannsóknar- og þróunardeild fyrirtækisins að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Össuri.

Kim de Roy hefur verið skipaður nýr forstöðumaður deildarinnar og mun þar með taka sæti í framkvæmdastjórn Össurar. Kim er með meistaragráður í endurhæfingarfræðum, sjúkraþjálfun og kennslu frá háskólanum í Leaven í Belgíu. Hann er með B.S. gráðu í lyfjafræði og stoðtækjum.

Kim de Roy gekk til liðs við Össur árið 2002 og vann í rannsóknum og þróun um fimm ára skeið. Í kjölfarið sinnti stjórnunarstöðum í sölu, markaðssetningu og fræðslu hjá Össuri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Undanfarin fimm már hefur hann leitt alþjóðlega markaðssetningu og fræðslustarf á stoðtækjum ásamt stoðtækjasölu í Ameríku. Áður en Kim hóf störf hjá Össuri var hann hjá fyrirtækinu RSScan International í Belgíu um þriggja ára skeið.