Rannsóknarsetrið um verslunina, sem er við Háskólann á Bifröst, gefur á ári hverju út skýrslu þar sem spáð er fyrir um jólaverslunina. Auk þess metur nefnd á vegum setursins hvaða vara verður jólagjöf ársins.

Meðal þess sem kom fram í skýrslunni var að áætlað væri að jólaverslun aukist um 7% frá síðasta ári. Leiðrétt fyrir verðhækkunum má ætla að hækkunin verði að raunvirði rúmlega 6,5%.

Heildarvelta í smásöluverslun í nóvember og desember verður 89 milljarðar króna án virðisaukaskatts, ef áætlanir útlistaðar í skýrslunni ganga eftir.

Metið er svo að hver og einn Íslendingur verji að meðaltali 45.300 krónum til innkaupa varðandi jólahaldið.

Jólagjöf ársins er þráðlaust hljómflutningstæki

Jólagjöf ársins 2015 er þráðlausir hátalarar eða heyrnartól. Ástæðan ku vera sú að notkun snjallsíma við spilun á afþreyingu hefur aukist til muna.

Símarnir geta ekki spilað tónlistina nægilega vel sjálfir, en þeir geta notast við þráðlausa Bluetooth-tækni. Þar kemur þráðlausi hátalarinn inn í myndina.

Forsendur valsins er að varan sé vinsæl meðal notenda, ný af nálinni, seljist vel, og falli vel að tíðarandanum. Jólagjöf ársins í fyrra var nytjalist, og árið þar á undan lífstílsbók.

Valnefndina um jólagjöfina skipuðu Sævar Kristinsson, Baldvina Snælaugsdóttir, Vala Höskuldsdóttir, Harpa Theodórsdóttir og Gunnar Lárus Hjálmarsson, mörgum betur þekktur sem Dr. Gunni.