Marine Stewardship Council-vottunarstaðallinn verður uppfærður þannig að hvorki nauðungarvinna né barnaþrælkun verði liðin. Fréttavefurinn Seafoodsource greindi frá þessu.

Nýju reglurnar taka gildi 28. september á þessu ári og fela í sér að sjávarútvegsfyrirtæki um heim allan þurfa að undirgangast eftirlit með því hvernig farið er með vinnuafl í greininni. Fyrirtækin fá síðan árs frest til þess að sýna fram á að þau hlíti nýja staðlinum, að öðrum kosti fá vörur þeirra ekki vottun.

Þó verða fyrirtæki undanþegin þessu geti þau sýnt fram á að lítil hætta sé á því að þau þvingi fólk til vinnu hjá sér eða láti börn sjá um störfin.

Vottunarsamtökin Marine Stewardship Council (MSC) sendu frá sér tilkynningu um þetta, en undanfarið hefur verið unnið að reglubundinni uppfærslu vottunarstaðalsins.

„Nauðungar- og barnavinna er málefni sem snertir greinina alla án þess að nein hraðvirk eða auðveld lausn sé til,“ segir í fréttatilkynningu frá MSC.

„Um heim allan eru meira en 150 milljónir barna og 25 milljónir fullorðinna þröngvaðir til vinnu. Við gerum okkur grein fyrir því hve mikilvægt er að takast á við nauðungar- og barnavinnu og höfum nú tekið upp aðgerðir til að fást við þetta mál í eftirspurnarkeðju vottaðra sjávarafurða,“ er haft eftir Yemi Oloruntuyi, yfirmanni hjá MSC.