Einu erlendu sjóðirnir sem eru í hluthafahópi Icelandair eru fjórir fjárfestingarsjóðir Eaton Vance, en þeir hafa næstum þrefaldað eignarhlut sinn í félaginu frá því í ársbyrjun 1015.

Samtals eiga sjóðirnir fjórir sem eru í eigu eignarstýringarfélagsins Eaton Vance samanlagt rúmlega 2% eignarhlut í Icelandair Group.

Er markaðsvirði þeirra samtals 1.600 milljónir miðað við gengi bréfanna við lokun markaða í gær að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Hlutabréfaverð lækkað um 55%

Sjóðirnir eru Global Macro Portfolio, Global Macro Absolute Return Advantage og JNL/Eaton Vance Global Macro. Áttu þeir samanlagt um 0,7% hlut í félaginu í byrjun árs 2015 en á sama tíma og þeir hafa aukið hlut sinn í félaginu hefur hlutabréfaverð þess lækkað um 55%.

Keypt í flestum félögum kauphallarinnar

Umsvif fjárfestingarsjóða í stýringu Eaton Vance hafa verið nokkuð mikil á íslenskum hluta- og skuldabréfamarkaði undanfarið en þeir hafa keypt í flestum skráðum félögum í kauphöllinni.

Voru þeir í lok síðustu viku á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa í sex félögum, það er HB Granda, Högum, Reitum, Eimskip, Símanum og Regin.

Höfða mál gegn ríkinu

Á tímanum frá ársbyrjun ársins 2016 hefur krónan styrkst um í kringum 17% gagnvart Bandaríkjadal.

Á sama tíma er Eaton Vance einn þeirra bandarísku fjárfestingarsjóða sem segjast vera að kanna möguleika á að höfða mál á hendur íslenska ríkinu, en málið snýst um meðferð aflandskrónueigna.