Bandaríski fjarskiptarisinn AT&T, seldi á síðastliðinn fimmtudag skuldabréf að nafnvirði 22,5 milljarða dollara. Markmiðið með útgáfunni var að fjármagna  hluta af 85,4 milljaraða dollara yfirtöku AT&T á Time Warner. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 1,6% álagi ofan á vexti Seðlabanka Bandaríkjanna. Voru það Bank of America, Merrill Lynch, Goldman Sachs, JPMorgan, Mizuho og MUFG sem sáu um útboðið

Mikil eftirspurn var eftir skuldabréfum AT&T sem er stærsta fjarskiptafyrirtæki Bandaríkjanna. Alls bárust tilboð að nafnvirði 60 milljörðum dollara samkvæmt heimildum Financial Times . Er þessi mikla eftirspurn í útboðinu talin sína að mikil alþjóðleg eftirspurn sé eftir fyrirtækjaskuldabréfum. Þá sérstaklega frá fjárfestum innan evrusvæðisins og Japan.

Útboðið er það stærsta á árinu á fyrirtækjaskuldabréfum og það þriðja stærsta í sögunni. Bandaríska símafyrirtækið Verizon og belgíski drykkjarframleiðandin Anheuser-Busch InBev eru einu fyrirtækin sem haldið hafa stærra útboð.