Ríflega þrefalt fleiri ferðamenn heimsækja Vestfirði og Norðurland yfir sumarmánuði heldur en vetrarmánuði. Er þetta meðal þess sem fram kemur í Ferðamannapúlsi Gallup, Isavia og Ferðamálastofu.

Kemur þar jafnframt fram að meðaleinkunn ferðamanna hingað til lands er 85 á skalanum 0-100, og ánægjan helst svipuð í júní og júlí og meðal þeirra sem heimsóttu landið framan af árinu.

Fjölgun ekki áhrif á heildaránægju

„Það er mikilvægt að fá þessar upplýsingar um upplifun ferðamanna hérlendis yfir háannatímann. Það er ánægjulegt að sjá að aukinn fjöldi ferðamanna hefur ekki áhrif á heildaránægju þeirra sem koma til landsins, en hún er að mælast svipuð yfir vetrar- og sumartímann. Mælingar á ánægju ferðamanna skiptir miklu máli fyrir framtíðarspár en ánægðir ferðamenn eru líklegri til að koma aftur til landsins og mæla með ferðalagi til landsins,“ segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Gallup í fréttatilkynningu.

Könnunin hófst í mars á þessu ári og byggir hún á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar og byggir á fimm spurningum sem allar vigta jafnt og mæla heildaránægju, gestrisni, hversu líklegir ferðamenn séu með að mæla með Íslandi sem áfangastað, uppfyllingu væntinga og hvort ferðin hafi verið peninganna virði.

Fleiri sækja landsbyggðina heim

Einnig eru ferðamenn spurðir út í ferðalög sín innanlands, en samkvæmt niðurstöðum þeirra sækja fleiri ferðamenn landsbyggðina heim yfir sumartímann en að vetri til, eins og vænta mætti.

Var mesti munurinn milli landshluta á Vestfjörðum og Norðurlandi þar sem ríflega þrefallt fleiri sækja þá landshluta að sumri heldur en að vetri til.

Um fimmtungur nýta sér Airbnb

Einnig er mikill munur á nýtingu ferðamanna á gistingu, en yfir vetrarmánuðina nýta ríflega tveir þriðju hlutar þeirra sér hótelgistingu, en yfir sumartímann lækkar hlutfallið niður í helming á sama tíma og hlutfall þeirra sem nýta sér gistingu í heimahúsum eykst upp í 29%. Segjast alls 22% hafa leigt sér íbúð í gegnum Airbnb.

Jafnframt er talsverður munur á hlutfalli ferðamanna sem nýta sér rútuferðir og aðrar skipulagðar ferðir að vetri og sumri, nota tæplega 53% rútur yfir vetrartímann, en að sumri til er sama hlutfall einungis 32%. Hlutfall ferðamanna sem leigja sér bíla fer úr 40% að vetri til upp í 60% yfir sumarið.