Þróun innlendrar netverslunar er að mati Samtaka verslunar og þjónustu í takt við aukna netverslun sem á sér stað annars staðar í heiminum.

Samtökin skoðuðu þróun og horfur í netverslun á Norðurlöndunum í þessu samhengi, en á fyrri helmingi þessa árs sögðust þriðjungur norrænna neytenda hafa keypt vörur frá útlöndum í gegnum netverslun.

Svíar kaupa af innlendum aðilum

Kaupa Svíar í auknum mæli vörur af innlendum aðilum á meðan Finnar eiga viðskipti við erlendar netverslanir. Sýna niðurstöður nýlegrar könnunar á Norðurlöndunum að verð, vöruúrval og aðgegni séu helstu hvatar þess að panta vörur frá útlöndum í gegnum netverslanir.

Minna máli skiptir að það spari tíma og að afhendingar- og skilamöguleikar séu góðir.

Skilað sér í lægra vöruverði

Í greinargerðinni vísa samtökin á að verðvísitala sem kannar verðþróun frá niðurfellingu tolla í samhengi við verðþróun erlendra vara, gengis, launa og annan innlendan kostnað sé í takti við verðvísitölu Hagstofunnar

„Samantekið þýðir þetta að á endanum hafi sterkara gengi og lækkun tolla sannarlega skilað sér í lægra vöruverði,“ segir í greinargerðinni.

„Ástæða þess að það hafi ekki lækkað enn frekar en raun ber vitni er fyrst og fremst miklar innlendar launahækkanir. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að málflutningur um samkeppnishæfni verslana endurspegli allar staðreyndir sem liggja þar til grundvallar.“

Nýja kynslóðin tæknivæddari og kröfuharðari

Vísar greinargerðin jafnframt í aukna eyðslu svokallaðrar Y-kynslóðar sem búist er við að auki eyðsluna um 15% meðan eftirstríðskynslóðin dragi sína saman um 10%.

En hin unga kynslóð sé jafnframt kröfuharðari, tæknivæddri og líklegri til að bera saman verð og gæði með notkun tækninnar.