*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 29. október 2018 14:18

30% á móti banni á plastpokum

Yfir 60% Íslendinga sögðust hlynnt banni á einnota plastpokum í verslunum. Vinstri grænir ekki hlynntastir banni.

Ritstjórn
Fjölmargar verslanir og fyrirtæki bjóða viðskiptavinum sínum plastpoka sem búnir eru til úr efnum sem falla til við olíuvinnslu, en þeir eru síðan notaðir eru á mörgum heimilum undir rusl.
Aðsend mynd

Í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var 3. til 10 ágúst síðastliðinn segjast 61% svarenda hlynnt banni á einnota plastpokum í verslunum en tæp 41% kváðust mjög hlynnt og tæp 21% frekar hlynnt. Kváðust 21% svarenda vera andvíg banni á einnota plastpokum í verslunum en 9% kváðust mjög andvíg, samanlagt nærri þriðjungur eða 30%.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá um helgina hefur Bónus ákveðið að hætta notkun plastpoka, heldur bjóða í staðinn poka sem eru lífniðurbrjótanlegir sem og bjóða viðskiptavinum sínum 100 þúsund fjölnota burðarpoka.

Vinstri grænir ekki mestu fylgismenn banns

Stuðningsfólk Samfylkingar, eða 71% þeirra, Pírata, eða 69% þeirra og Vinstri grænna , eða 64% þeirra var líklegast til að vera fylgjandi banni á einnota plastpokum.

Þá var stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins eða 33% þeirra, Viðreisnar og Flokks fólksins líklegast til að vera andvígt banni en 28% stuðningsmanna síðastnefndu tveggja flokkanna voru andvíg. Konur voru líklegri, eða 69% þeirra, en karlar  til að vera hlynntar banni á einnota plastpokum, eða 69% kvenna á móti 54% karla.

Svarendur í yngsta aldurshópi, á milli 18-29 ára, voru líklegust til að vera fylgjandi banni á einnota plastpokum eða rétt um tveir þriðju þeirra. Andstaða við bann jókst í takt við hækkandi aldur. Af þeim sem lokið höfðu háskólamenntun kváðust 67% vera fylgjandi banni, samanborið við 60% þeirra með framhaldsskólamenntun og 56% þeirra með grunnskólamenntun.