Í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar yfir íslenska fjarskiptamarkaðinn fyrir fyrri hluta ársins 2017 voru 457.567 símkort í notkun á Íslandi. Samkvæmt skýrslunni er Nova stærsta farsímafyrirtæki landsins með 34,9% markaðshlutdeild í fjölda viðskiptavina.

Í skýrslunni kemur einnig fram að viðskipavinir Nova notuðu farsímann sinn að meðaltali mun meira en viðskiptavinir annarra símafyrirtækja en þó áberandi mest þegar kemur að netnotkun að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Viðskiptavinir Nova notuðu 60,6% alls gagnamagns í farsímum á Íslandi á fyrri hluta ársins 2017 og er netumferðin á 4G kerfi Nova margfalt meiri en hjá samkeppnisaðilum. Ef markaðurinn er skoðaður út frá símkortum sem fara í annað en farsíma, t.d. 4G punga, iPad og box þá er markaðshlutdeild Nova 26,6% í fjölda viðskiptavina en 67,6% í netnotkun.

Fyrirtækið setti upp fyrsta 3G farsímakerfið hér á landi árið 2006, hóf 4G þjónustu árið 2013 fyrst fyrirtækja og þann 10.10.2017 setti félagið fyrstu 4,5G sendana í loftið. 4,5G er næsta kynslóð farsímakerfa og er Nova á meðal fyrstu símfyrirtækja í Evrópu til að hefja slíka þjónustu. 4,5G fjarskiptakerfi Nova mun þrefalda nethraða notenda að meðaltali frá 4G.

Hver ný kynslóð fjarskiptakerfa hefur haft í för með sér margföldun á hraða og þar með á notkunarmöguleikum farsíma, úrvali smáforrita og annarra samskipta. Ný öflugri fjarskiptakerfi ryðja brautina og gera nýjar framfarir mögulegar. Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, er ánægð með niðurstöðurnar. „Ég vil nota tækifærið og þakka viðskiptavinum okkar fyrir frábærar viðtökur,“ segir Liv.