Íslandsbanki spáir í því í að 29% aukning verði á komu ferðamanna til Íslands og þeir verði rúmlega 1,6 milljón á þessu ári. Ef spá bankans gengur eftir þá mun fjöldi ferðamanna vera tæplega fimmfaldur fjöldi búsettra á Íslandi á árinu, eða um 30 þúsund ferðamenn á degi hverjum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu. Ferðamenn á heimsvísu voru 1.184 milljónir á árinu 2015, en einn af hverjum þúsund heimsótti Ísland.

Íslandsbanki gerir ráð fyrir því að útflutningstekjur ferðaþjónustunar muni vera tæplega 428 milljarðar króna og að hlutur greinarinnar í heildarútflutningstekjum verði um 34% á árinu 2016. Kortavelta erlendra ferðamanna jókst um ríflega 40 milljarða króna á árinu 2015, eða sem nemur 35,4%.

Eitt af hverjum þremur

Samkvæmt skýrslunni má rekja eitt af hverjum þremur störfum sem hafa skapast í hagkerfinu frá 2010 til 2015 til ferðaþjónustu, en þá eru ótalin þau störf sem vöxtur í ferðaþjónustu hefur skapað, s.s. á bílaleigum, smásölu, afþreyingu og annarri þjónustu.

Fjölgun hótelherbergja hefur aldrei verið meiri en á árinu 2015. Alls bættust við 872 ný herbergi á árinu, en munar mestu um opnun Fosshótels Reykjavíkur, Kea hótelin, Hótel Skugga og Hótel Storm. Fjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu nam 26,3% á árinu.