Um þriðjungur Íslendinga getur ekki ráðið við einfaldan vaxtaútreikning. Þetta kemur fram í könnum sem markaðrannsóknafyrirtækið MMR gerði fyrir Samtök fjármálafyrirtækja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFF.

Spurningarnar í könnuninni voru byggðar á spurningakönnun sem gerð hefur verið í fjölda vestrænna ríkja og eru því niðurstöðurnar samanburðahæfar. Tæplega 70% aðspurðra gátu svarað spurningu um hversu mikil ávöxtun verður á fimm árum á sparifjárreikningi sem ber 2% ársvexti. Er þetta sambærileg niðurstaða og fékkst þegar sama spurning var borin upp í bandarískri könnun.

Meira en 80% aðspurðra gátu svarað spurningunni rétt í könnunum sem voru gerðar í Hollandi og Þýskalandi. Athygli vekur að það er sama hlutfall og þegar niðurstaða könnunarinnar fyrir aldurshópinn 18-29 hér á landi er skoðuð. Hlutfallið er lægra en hjá þeim sem eldri eru.

Íslendingar virðast hinsvegar hafa ágæta tilfinningu fyrir raunvöxtum og verðbólgu samkvæmt könnuninni. Um 80% gátu svarað rétt að virði peninga á bankareikningi rýrnar þegar verðbólga er hærri en vextir á reikningnum. Um 78% aðspurðra svöruðu slíkri spurningu rétt þegar kannanir voru gerðar í Þýskalandi og Hollandi. Um 60% svöruðu rétt í sambærilegum könnunum í Bandaríkjunum og Japan.

Einnig var spurt um áhættu. Um 55% aðspurða töldu áhættuminna að fjárfesta í hlutabréfasjóði frekar en í hlutabréfum einstaka fyrirtæki. Er þetta sambærileg niðurstaða og fékkst í Bandaríkjunum og í Hollandi. Í Þýskalandi var hlutfallið 62% en 40% í Japan.

SFF létu gera könnunina í tilefni ráðstefnu um fjármálalæsi sem fer fram í dag.