Þríhnúkar ehf. er félag sem stofnað var í byrjun árs 2005. Félagið dregur nafn sitt af Þríhnúkagíg, sem er 120 metra djúp gíghvelfing skammt frá höfuðborgarsvæðinu. Upphaflegur tilgangur félagsins var að gera hellinn aðgengilegan almenningi. Í dag er hvelfingin orðin vinsæll ferðamannastaður.

Þríhnúkar ehf. hófu árið 2012 að selja aðgang að gíghvelfingunni og var stofnað sérstakt félag um þann rekstur. Það félag nefnist 3H Travel og eru ferðirnar seldar undir nafninu Inside the Volcano og er verðið 42 þúsund krónur á mann.

Bæði Reykjavíkurborg og Kópavogsbær hafa selt hluti sína í Þríhnúkum ehf. Þar með er félagið alfarið í eigu einkaaðila en stærsti hluthafinn er Iceland Tourism Fund I (ITF I), sem er fagfjárfestasjóður Landsbréfa.

Kópavogsbær auglýsti sinn 13.9% hlut til sölu og fékk tvö tilboð. ITF I nýtti sér forkaupsrétt og keypti hlutinn á 20,5 milljónir. Reykjavíkurborg auglýsti sinn hlut ekki til sölu heldur gekk til samninga við ITF I, sem hafði lagt inn tilboð. Borgin fékk 16,6 milljónir fyrir 13,9% hlut.

Á nú 57% hlut

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa miklar breytingar hafa orðið á eignarhaldi Þríhnúka ehf. á þessu ári. Auk þess að hafa keypt hluti Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar, keypti ITF I einnig 15,2% hlut Árna B. Stefánssonar, sem var einn af frumkvöðlum verkefnisins og 13,9% hlut Icelandair Group hf.

Sjóðurinn á því í dag um 57% hlut í félaginu. Næst stærsti hluthafinn er Björn Ólafsson, sem er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins. Þá á Einar K. Stefánsson einnig hlut sem og VSÓ ráðgjöf ehf. Um síðustu áramót voru hluthafarnir átta talsins en nú eru þeir fjórir.

3H Travel skilaði 18,7 milljóna króna hagnaði í fyrra en 8,3 milljónum árið 2014. Hagnaðurinn jókst því um 125% milli ára.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta nálgast áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Áhyggjur ferðaþjónustuaðila sem segja greinina búa við raunverulega ógn
  • Einkaaðilar sem sinna viðamiklu eftirliti hér á landi vilja fá frekari tækifæri til að sinna slíku
  • Sífellt meðvitaðri íslenskir neytendur sem séu fljótir að refsa
  • Fjallað var um verðlagsmál á Íslandi á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga
  • Lækkun raforkuverðs til sölufyrirtækja rafmagns
  • Staða ríkisfjármála sem þurfi á auknu aðhaldi á ný, þrátt fyrir bætta stöðu
  • Orri Hauksson, forstjóri Símans, er í ítarlegu viðtali
  • Stækkun veiðisvæðis Laxár á Ásum
  • Nýtt rekstrarfélag verðbréfasjóða rekur fjóra fagfjárfestingarsjóði
  • Möguleg töfrabrögð í markaðsmálum
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um reiða vinstrimenn
  • Óðinn skrifar um innflytjendur