Lyfjafyrirtækið Alvotech heldur áfram að bæta við sig lykilstjórnendum sem leiða alþjóðlega uppbyggingu fyrirtækisins segir í fréttatilkynningu frá félaginu, en félagið hefur fengið til sín þrjá lykilstjórnendur. Það eru þeir Ronald Marchesani, Jayanth Sridhar og Jakob Finnbogason sem munu stýra mismunandi verkefnum fyrirtækisins.

Ronald Marchesani
Ronald Marchesani
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Ronald Marchesani er í hópi okkar reyndustu stjórnenda og mun stýra gæðasviði Alvotech. Hann býr yfir um 40 ára starfsreynslu á gæðasviði lyfja- og líftækniframleiðslu og starfaði nú síðast hjá líftæknirisanum Samsung Biologics í Suður-Kóreu. Ronald hefur einnig starfað fyrir Amgen og Onyx Pharmaceuticals sem yfirmaður gæðamála. Ronald lauk námi frá háskólanum í Miami í Bandaríkjunum í efna- og líffræði.

Jayanth Sridhar
Jayanth Sridhar
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Jayanth Sridhar býr yfir nærri 20 ára reynslu á sviði líftæknilyfja og hefur gegnt stjórnendastörfum hjá fjölda alþjóðlegra lyfjafyrirtækja. Jayanth leiðir 100 manna hóp vísindamanna sem munu meðal annars bera ábyrgð á framleiðslusviði fyrirtækisins. Hann er doktor í lífefnafræði frá University of Georgia í Aþenu og er virkur meðlimur líftæknideildar American Chemical Society.

Jakob Finnbogason
Jakob Finnbogason
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Jakob Finnbogason mun leiða innkaup Alvotech og starfar á fjármálasviði. Hann var áður deildarstjóri innkaupa hjá Landspítala Íslands og hefur yfir 20 ára reynslu úr lyfja og heilbrigðisgeiranum. Jakob starfaði um langt skeið hjá dótturfélagi Actavis. Hann lauk B.Sc. gráðu frá Odense Teknikum í Danmörku sem rekstrartæknifræðingur.

Um Alvotech

Hjá Alvotech starfa um 250 vísindamenn sem hafa það sameiginlega markmið að vinna að uppbyggingu leiðandi fyrirtækis á heimsvísu í þróun og framleiðslu líftæknilyfja (e. biosimilars).

Lyf fyrirtækisins eru notuð til meðhöndlunar á ýmsum algengum og erfiðum sjúkdómum eins og gigt, öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum og krabbameini. Alvotech er systurfyrirtæki alþjóðlega samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen sem jafnframt hefur aðsetur í Vatnsmýrinni og Róbert Wessman er stofnandi fyrirtækisins.