Þrír risar í bandarísku viðskiptalífi hafa tilkynnt að þeir hyggist sækja inn á heilbrigðismarkaðinn í Bandaríkjunum að því er Seattle Times greinir frá. Fyrirtækin þrjú eru Amazon, JP Morgan Chase og Berkshire Hathaway en hið síðastnefnda er fyrirtæki fjárfestisins Warren Buffett.

Markmiðið er að þróa tækni sem veitir starfsmönnum þessara þriggja fyrirtækja einfalda heilbrigðisþjónustu á sanngjörnu verði. Samanlagt eru starfsmenn félaganna þriggja fleiri en milljón talsins.

Í tilkynningu sem var send á fjölmiðla vestanhafs er haft eftir Buffett að fyrirtækin hafi trú á því að hægt sé að draga úr kostnaðarhækkunum í heilbrigðiskerfinu á sama tíma og ánægja og árangur sé aukinn.

Nýja verkefnið á ekki að vera hagnaðardrifið og til langs tíma.