Óhætt er að tala um risana þrjá á íslenskum tryggingamarkaði. Markaðshlutdeild TM, VÍS og Sjóvár var samtals 89,8% í lok síðasta árs, sé miðað við iðgjöld. VÍS hefur haldið stöðu sinni sem stærsta félagið með rúmlega 37% markaðshlutdeild. Næst kemur Sjóvá en hlutdeild þess á markaði hefur dregist töluvert saman frá árinu 2007, mest tryggingafélaganna. Markaðshlutdeild félaganna og breytingar síðustu fimm ára má sjá á myndunum hér til hliðar.

Vörður hefur sótt í sig veðrið á markaðnum. Miðað við iðgjöld er hlutdeild félagsins nú 10% og hefur aukist frá því að vera um 6% árið 2007. Á sama tímabili hafa umsvif risanna dregist saman frá því að vera 93,5% í 89,8%.

Vert er að benda á að hér reiknast markaðshlutdeildin miðuð við iðgjöld. Þar sem vátryggingafélag getur laðað til sín kúnna með því að lækka iðgjöld er mögulegt að markaðshlutdeildin, samkvæmt öðrum mælikvörðum, minnki þó að kúnnahópurinn stækki.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.