Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi í dag þá þrjá menn sem ákærðir voru fyrir innherjasvik með hlutabréf Icelandair. Tveir hlutu fangelsisdóm og einn skilorðsbundinn dóm auk þess sem hald var lagt á 52 milljónir króna. Hinir ákærðu voru Kristján Georg Jósteinsson, Kjartan Jónsson og Kjartan Bergur Jónsson, en þeir héldu allir fram sakleysi sínu. Frá þessu er greint á fréttavefnum Vísir .

Mennirnir voru kærðir fyrir innherjasvik og hlutdeild að innherjasvikum á árunum 2015-2017. Grunur lék á að Kjartan Jónsson, sem var starfsmaður Icelandair með stöðu fruminnherja, hefði lekið upplýsingum sem sakborningarnir hafi nýtt til viðskipta með hlutabréf Icelandair. Talið er að viðskiptin hafi skilað mönnunum 61 milljón króna í hagnaði.

Kjartan Jónsson var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar, auk þess var tæplega ein milljón af bankareikningi hans, sem var kyrrsettur í tengslum við rannsóknina 2017, var gerð upptæk. Kjartan var sömuleiðis gert að greiða tvo þriðju hluta verjandalauna sinna.

Kristján Georg var dæmdur til þriggja ára og sex mánaða fangelsisvistar. Þá var 32 milljónir króna gerðar upptækar frá fyrirtækinu Fastrek, sem er í eigu Kristjáns, en félagið sætti einnig ákæru vegna málsins. Honum jafnframt gert að greiða þrjá fjórðu hluta verjandalauna.

Kjartan Bergur hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm og að sæta upptöku á rúmlega 21 milljón króna, sem kyrrsettar voru í tengslum við rannsóknina. Jafnframt var honum gert að greiða öll laun vegna málsvarnar sinnar.